Sykursætur plómukokteill

Plómudrykkur með timjan fer afskaplega vel með dögurði í staðinn …
Plómudrykkur með timjan fer afskaplega vel með dögurði í staðinn fyrir mímósu. mbl.is/thediaryofus

Þessi stórgóði kokteill á vel við sumarið. Sætar og safaríkar plómur tóna vel við freyðivín og timjan gefur sérstaklega gott eftirbragð. Það má útbúa þennan sæta sumardrykk með prosecco eða kampavíni, en einnig er vel hægt að gera hann án áfengis og nota þá sódavatn í stað freyðivíns. Þessi drykkur fer afskaplega vel með dögurði í staðinn fyrir mímósu og er fullkominn fordrykkur til að dreypa á í matarboðum um helgina.

Sykursætur plómukokteill

  • 2 plómur
  • 6 greinar af fersku timjan
  • safi úr 1 sítrónu
  • 4 msk. Timjan-síróp
  • 1 flaska af góðu freyðivíni

Aðferð

  1. Byrjum á því að búa til timjan-sírópið. Setjið ½ bolla sykur og ½ bolla af vatni í pott og náið upp suðu. Hrærið þar til fer að þykkna og takið pottinn þá af hellunni. Bætið við 6 greinum af fersku timjan og hrærið saman. Leyfið sírópinu að kólna vel.

  2. Flysjið og skerið tvær plómur niður í teninga. Merjið plómurnar saman við timjan-sírópið og sítrónusafann. Þetta má gera beint í glasinu, eða í skál og færa svo yfir í glas.

  3. Hristu blönduna saman við ísmola í kokteilhristu. Fyllið glös af klaka og hellið blöndunni yfir.

  4. Að lokum eru glösin fyllt upp að brún með freyðivíni og skreytt með plómusneið og grein af fersku timjan.

  5. Berið strax fram og njótið í góðra vina hópi.
mbl.is