Íslendingar ná góðum árangri í Bocuse d'Or

Mynd/Þráinn Freyr Vigfússon

Bjarni Siguróli Jakobsson náði 9. sætinu í Evrópuforkeppni Bocuse d'Or matreiðslukeppninnar haldin var í Tórino dagana 11-12 Júní. Úrslitin voru tilkynnt í dag kl. 17 að íslenskum tíma. Árangur Bjarna gefur honum keppnisrétt í aðalkeppni Bocuse d'Or, sem haldin verður í Lyon í Frakklandi 24.-25. janúar 2019.

Bocuse d'Or er ein af virtustu matreiðslukeppnum heims og eru þátttakendur meðal fremstu matreiðslumanna sinna landa. Keppnin er því hörð og miklar kröfur gerðar til keppenda.

Bjarni hafði fimm og hálfa klukkustund til þess að matreiða forrétt og kjötrétt fyrir 20 dómara. Allt gekk samkvæmt áætlun og voru Bjarni, aðstoðarmaður hans og þjálfari  að vonum hæstánægðir með úrslitin. 

Nú halda áfram strangar æfingar hjá Bjarna en hann stefnir ótrauður á verðlaunapall í Lyon. Þjálfari hans er Viktor Örn Andrésson, bronshafi og Bocuse d'Or keppandi 2017, og aðstoðarmaður er Ísak Þorsteinsson.

Keppnin Bocuse d'Or hefur verið haldin síðan 1987 en fyrsti íslenski keppandinn tók þátt árið 1999. Það var Sturla Birgisson og náði hann fimmta sæti. Síðan þá hafa Íslendingar ávallt verið í níu efstu sætunum en bestum árangri náði Hákon Már Örvarsson árið 2001 og Viktor Örn Andrésson árið 2017 náðu þeir báðir í bronsverðlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert