Linsubaunapottréttur fyrir rigningardaga

Þessi linsubaunaréttur fer afar vel með hrísgrjónum. Hann geymist einnig …
Þessi linsubaunaréttur fer afar vel með hrísgrjónum. Hann geymist einnig vel í frysti svo gott er að eiga og grípa til á rigningardögum. mbl.is/eatwell101

Við verðum bara að horfast í augu við þá staðreynd að íslenskt sumar er ekki bara sól og sæla. Fyrir þá daga sem rigningin lemur rúðurnar er gott að eiga ljúffenga uppskrift að huggunarfæði sem vermir og yljar. Við mælum sérstaklega með því að stinga upp í sig skeið af þessum meinholla og ljúffenga linsubaunarétti til að þagga niður í ekkasogum yfir sólarleysi og súld. En þessi pottréttur er afar einfaldur í undirbúningi, ódýr og stútfullur af góðri næringu.

Linsubaunaréttur fyrir rigningardaga

  • 2 msk. ólífuolía
  • 1 stór laukur
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 400 gr grasker
  • 1 stór sæt kartafla
  • 750 ml soð af grænmetiskrafti
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 1 dós kókosmjólk
  • 100 gr. rauðar linsubaunir
  • 3 msk. tómatpúrra
  • 1 og ½ tsk. túrmerik
  • 1 og ½ tsk. kúmen
  • 1 og ½ tsk. chiliduft
  • ¼ tsk cayanne pipar
  • sjávarsalt eftir smekk
  • pipar eftir smekk
  • 3 tsk. eplaedik
  • 1 búnt af fersku spínati
  • 1 búnt af ferskum kóríander

Aðferð

  1. Skolið linsubaunirnar vel með því að láta renna yfir þær vatn í sigti.

  2. Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt og setjið í stóran pott með ólífuolíu. Steikið létt í nokkrar mínútur þar til laukurinn er orðinn mjúkur.

  3. Skerið niður grasker og sætakartöflu í litla teninga og bætið út í pottinn. Bætið við klípu af salti og steikið í 3-4 mínútur.

  4. Bætið þar næst við soði af grænmetiskrafti, niðursoðnum tómötum, kókosmjólk, tómatpúrru, linsubaunum, túrmerik, kúmen, chillidufti, cayanne pipar og salti og pipar. Blandið vel saman.

  5. Hækkið þá hitann og náið upp góðri suðu. Lækkið svo hitann í meðalhita og látið þetta krauma í pottinum í um 30 mínútur, en hrærið annað slagið í réttinum.

  6. Þegar graskerið og sætu kartöflurnar eru orðnar vel mjúkar má bæta eplaediki við. Hrærið því næst fersku spínati saman við. Ef þið viljið hafa pottréttinn án kekkja má mauka hann með töfrasprota, en það er alls ekki nauðsynlegt, einungis smekksatriði.

  7. Þessi réttur fer afar vel með hrísgrjónum og er gott að bera hann fram í skál með því að moka hrísgrjónum í botn skálarinnar, baunaréttinn þar ofan á og saxa ferskan kóríander yfir. Pottrétturinn geymist stórkostlega vel í frysti og er gott að eiga til að grípa til á köldum og hráslagalegum rigningardögum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert