Fagnaði því að 50 kíló væru farin með köku

mbl.is

Íris Valgeirsdóttir náði þeim áfanga á dögunum að vera búin að missa 50 kíló. Fyrir Írisi var þetta mikill persónulegur sigur og af því tilefni bauð hún vinnufélögunum upp á þessa stórskemmtilegu köku með mynd af sjálfri sér til að þakka þeim stuðninginn.  

„Eftir árangurslausar tilraunir til að létta mig í 27 ár fór ég í magahjáveituaðgerð. Ég var búin að reyna allt en ekkert gekk. Þetta var án efa besta ákvörðun sem ég hef tekið og það gengur svakalega vel í kjölfarið,“ segir Íris, spurð um tilefnið. Ég er léttari á allan máta andlega og líkamlega, bætir hún við og segist borða nánast allan mat en borði mjög lítið í einu.

„Ég tók náttúrlega mataræðið alveg í gegn og borða mikið af próteinum og nánast engan sykur. Ég borða mjög lítið í einu en oft því ég þarf að passa að fá nóga næringu. Mig langar ekki lengur í óhollustu heldur passa mig hvað ég set ofan í mig. Hérna áður fyrr þá var maður bara alltaf að stoppa eftir vinnu og fá sér pylsu, KFC, Subway og svoleiðis en núna langar mann ekki baun í svoleiðis mat. Bara hollt!“

Hljóp sitt eigið kvennahlaup

„Myndin sem fylgir með er af mér uppi á hálendi, nánar tiltekið á Rjúpnavöllum þar sem ég hljóp mitt eigið kvennahlaup. Ég var búin að setja mér það markmið að hlaupa kvennahlaup þegar ég væri búin að léttast mikið en þar sem ég var að laga stikur á gönguleið upp á hálendi þegar hlaupið var þá ákvað ég að hlaupa bara ein.“

Kakan sem Íris færði samstarfsfólki sínu.
Kakan sem Íris færði samstarfsfólki sínu. mbl.is/aðsend mynd
Íris fagnar sínu eigin kvennahlaupi.
Íris fagnar sínu eigin kvennahlaupi. mbl.is/aðsend mynd
mbl.is