Gæti ekki lifað án súrdeigsbrauðs

Sigrún á CaféSigrún býður upp á fjölda ljúffenga uppskrifta þar …
Sigrún á CaféSigrún býður upp á fjölda ljúffenga uppskrifta þar sem hollusta og góð næring er í fyrirrúmi. mbl.is/SigrúnÞorsteinsdóttir

Flestir hafa heimsótt vefsíðu Sigrúnar Þorsteinsdóttur, CafeSigrun, á einhverjum tímapunkti, í leit að hollri og ljúffengri uppskrift, eða flett í gegnum uppskriftabókina hennar CaféSigrún: Hollustan hefst heima. Sigrún býður þar upp á fjölda ljúffenga uppskrifta þar sem hollusta og góð næring er í fyrirrúmi.

Þegar hún er ekki að bauka í eldhúsinu vinnur hún sem barnasálfræðingur á Barnaspítala Hringsins, og er þar að auki í doktorsnámi við Háskóla Íslands í Heilsueflingu, með áherslu á matvendni barna og afleiðingar hennar á heilsu og líðan. Það er því í nægu að snúast hjá Sigrúnu og við þakklát að hún gefur sér tíma til að svala sárustu forvitni okkar um matar- og eldhúsvenjur hennar. 

Kaffi eða te: Úff, flókið. Koffínlaust English Breakfast te á morgnana og 2 sopar af dásamlegu espresso úr Elektru, espressovél eiginmannsins að auki; Ef ég er á kaffihúsi þá einfaldur, koffínlaus, sojalatte með slettu af sykurlausu sírópi. Ég er mjög viðkvæm fyrir koffíni sem útskýrir flækjuna. 

Hvað borðaðir þú síðast? Í sannleika sagt, skál af klettasalati, eikarlaufi, papriku, blómkáli, spergilkáli og agúrkum sem 8 ára dóttir mín hafði til sjálf í kvöldsnarl því „hana vantaði vítamín”. Algjört lúxusvandamál þegar börnin klára allt grænt úr ísskápnum!

Hin fullkomna máltíð: Þar sem gleði, húmor og góður vinskapur ríkir, þá bragðast flestur matur vel.

Hvað borðar þú alls ekki? Sælgæti, kjöt og draslmat.

Avókadó á ristað brauð eða pönnukökur með sírópi? Það er fátt sem slær við vel þroskuðu og óskemmdu avókadói (ég tek þátt í avókadólottóinu eins og aðrir Íslendingar, líkurnar eru 1 gott/30 skemmd er það ekki?), ofan á ristuðu súrdeigsbrauði með ólífuolíu, salti og pipar.

Súpa eða salat? Held ég verði að segja súpa, ég er mikill aðdáandi en matarmikil salöt borðum við þó óheyrilega oft á heimilinu.

Uppáhalds veitingastaðurinn: Tvímælalaust ROKA í London en annars er maturinn á Álftanes Kaffi lúmskt góður. Tilgerðarlítill, eldaður frá hjartanu og gæði í gegn.

Besta kaffihúsið: Kaffeine í London en annars Kaffitár, þau skilja flækjuna mína og eru hætt að hrista höfuðið yfir mér.

Salt eða sætt? Döðlusaltkaramellusósa.

Fiskur eða kjöt? Fiskur, ég er grænmetisæta.

Hvað setur þú á pizzuna þína? Ég set eiginlega svolitla pizzu með álegginu: klettasalat, sveppi, kapersber, svartar ólífur, papriku, ætiþistla, avókadó og ost.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur borðað? Gullhúðaðir sporðdrekar á veitingastaðnum Archipelago í London (áður en ég varð grænmetisæta). En ég verð líka að nefna súpuna sem ég fékk eitt sinn í fjallaþorpi í Tanzaníu, átti að vera blómkálssúpa en var örugglega veggfóðurslím.

Matur sem þú gætir ekki lifað án: Súrdeigsbrauð og ég segi það upphátt í hvert skipti sem ég borða súrdeigsbrauð.

Uppáhalds drykkur: Hreint, ískalt sódavatn en þar fyrir utan er það tebollinn á morgnana.

Besta snarlið: Ég er alltaf með heimatilbúið nasl í töskunni: þurrkað mangó, döðlur, rúsínur, möndlur, hnetur o.fl. Ég er eins og hestur á beit og er stanslaust borðandi.

Hvað kanntu best að elda? Ég hef 13 ára reynslu í sushigerð og get vippað upp um 400 bitum á ekki svo löngum tíma. Og miðað við stunurnar í þeim sem borða er það skrambi gott.

Hvenær eldaðir þú síðast fyrir einhvern? Í kvöld, fyrir fjölskylduna eins og ég geri flest kvöld.

Uppáhalds eldhúsáhaldið: Vitamix blandarinn minn, hann gæti maukað reiðhjól í súpu, svo öflugur er hann.

Besta uppskriftarbókin: Ok ég verð að segja, þó það hljómi eins og mont, að ég nota bókina mína CaféSigrún: Hollustan hefst heima, fáránlega mikið. Annars allt frá Ottolenghi.

Sakbitin sæla: Lífrænt framleitt súkkulaði með saltkaramellu...og auðvitað súrdeigsbrauð.

Uppáhalds ávöxtur: Mangó.

Besti skyndibitinn: Pass því ég borða ekki skyndibita :)

Ef þú fengir Vigdísi Finnbogadóttur í mat, hvað myndir þú elda? Ég myndi hringja í hana mjög feimin og stressuð og spyrja hvað henni þætti gott, en í laumi myndi ég vona að hún a) borðaði sushi, eða b) væri grænmetisæta og c) myndi ekki nefna grillmat því ég kann ekkert að grilla. Ég myndi elda næringarríka og góða máltíð fyrir hana ásamt dásamlegri hráfæðisköku. En verandi sálfræðingur og gríðarlega forvitin um fólk, myndi ég þó sennilega spyrja hana svo mikið að við myndum ekki ná að borða matinn! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert