Svövukjúklingur með gómsætu grænmeti

mbl.is/Svava Gunnarsdóttir

Svava Gunnarsdóttir á Ljúfmeti og lekkerheit býður hér upp á afskaplega einfaldan en bragðgóðan rétt sem allir ættu að elska - enda getur ketó, LKL og allir hinir borðað hann samviskulaust. 

Einfaldur kjúklingur með gómsætu grænmeti

Það sem ég setti á pönnuna í þetta skiptið var:

  • sæt kartafla
  • sellerírót
  • brokkólí
  • rauðlaukur
  • papikur, rauð og græn
  • 4 kjúklingabringur

Ég byrjaði á að skera sætu kartöfluna og sellerírótina í bita á meðan pannan var að hitna. Það fór svo á pönnuna ásamt smá ólífuolíu og á meðan skar ég það sem eftir var af grænmetinu niður.

Þegar kartöflurnar voru farnar að mýkjast bætti ég grænmetinu á pönnuna ásamt smá vatni (ca 1/2 dl), lækkaði hitann og setti lokið á pönnuna.

Eftir um 5 mínútur bætti ég niðurskornum kjúklingabringunum á pönnuna og blandaði öllu vel saman. Kryddað eftir smekk og borið fram með tzatziki.

Það getur verið gott að hafa brauð með (t.d. pítubrauð) en sjálfri þykir mér kjúklingurinn og grænmetið duga.

Ég nota sous vide elduðu kjúklingabringurnar sem fást orðið í verslunum (eða hafa þær kannski fengist lengi? Ég uppgötvaði þær bara nýlega) og hendi þeim á pönnuna undir lokin þannig að þær hitni aðeins. Annars er frábært að eiga þær í ísskápnum til að setja í pastarétti eða á pizzur. Geymast lengi og gott að geta gripið í þær.

mbl.is/Svava Gunnarsdóttir
mbl.is