Fáránlega auðveld fótboltakaka

mbl.is/pinterest

Til að tjá hversu vel við kunnum að meta þetta fótboltaæði, frammistöðu Íslands og strákana okkar þrusum við að sjálfsögðu í eina veglega fótboltaköku. Þessi kaka er furðu auðveld í undirbúningi og er vís með að vekja mikla kátínu þegar setið er yfir leiknum. Grunnurinn er gamla góða íslenska skúffukakan, með grænu kremi, grænu kókósmjöli til að líkja eftir grasi, og hvítu súkkulaði sem sprautað er á til að gera línur vallarins. Þá er lítið annað að gera en bretta upp ermarnar og hita ofninn í 175 gráður. Húh!

Fáránlega auðveld fótboltakaka

Í skúffukökuna fer:

 • 150 gr. smjör
 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 2 tsk. vanillusykur
 • 2 msk. kakó
 • 4 dl hveiti
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 1 1/2 dl mjólk

Í kremið fer:

 • 230 gr. mjúkt smjör
 • 4 dl flórsykur
 • 200 gr. hvítt súkkulaði
 • 2 tsk. vanilludropar
 • grænn matarlitur

Í skrautið fer:

 • 200 gr. kókosmjöl
 • grænn matarlitur
 • 100 gr. hvítt súkkulaði

Aðferð

 1. Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins.

 2. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt.

 3. Blandið þurrefnunum saman og hrærið saman við eggin og sykurinn. Bætið smjörinu og mjólkinni saman við og blandið öllu vel saman.

 4. Setjið deigið í smurt skúffukökuform og bakið í miðjum ofni í um 25 mínútur. Þegar kakan er til má leyfa henni að kólna vel áður en hún er skreytt.

 5. Þá gerum við kremið. Blandið flórsykri og smjöri vel saman. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið örlítið. Bætið því næst bráðna súkkulaðinu og vanilludropum saman við flórsykurinn og smjörið og blandið varlega en vel saman. Að lokum má setja þó nokkra dropa af grænum matarlit til að ná fram góðum grasgrænum lit. Gott er að leyfa kreminu að kólna í um það bil kortér áður en því er smurt á vel kælda kökuna.

 6. Takið stóra skál og hellið kókosmjölinu í. Sprautið vel af grænum matarlit og hrærið saman við. Best er að mylja kókosmjölið vel saman við matarlitinn með höndunum, en við mælum með því að vera í einnota hönskum fyrir þá aðgerð. Dreifið svo græna kókosmjölinu jafnt og vel yfir kökukremið ofan á skúffukökunni.

 7. Að lokum eru það smáatriðin. Bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði. Þegar súkkulaðið er bráðnað má setja það í sprautupoka og sprauta línur og mark á kökuna. Ef þið eruð í svaka stuði má líma hlaupbangsa á kökuna með hvítu súkkulaði, þeir líta út eins og litlir krúttlegir leikmenn.

 8. Njótið í góðra vina hópi og áfram Ísland!
mbl.is/pinterest
mbl.is