HM-partíréttir Evu Laufeyjar: Buffalóvængir með gráðostasósu

Fyrirtaksveitingar fyrir næsta leik.
Fyrirtaksveitingar fyrir næsta leik. mbl.is/Eva Laufey

Ef það er eitthvað sem passar eins og flís við rass þegar kemur að HM-meðlæti þá eru það buffalóvængir með gráðostasósu. Sjálf Eva Laufey er hjartanlega sammála okkur og segir að það sé alltaf staður og stund fyrir gómsæta og stökka kjúklingavængi. 

Þessi uppskrift er einmitt úr hennar smiðju en hún sagði jafnframt að vængirnir hefðu slegið í gegn og að gráðostasósan væri æði.

Matarblogg Evu Laufeyjar má nálgast HÉR.

Buffalóvængir með gráðostasósu

 • 15 – 20 kjúklingavængir
 • 3 msk. hveiti
 • 1 tsk. salt
 • 1 tsk. pipar
 • 1 tsk. paprikukrydd
 • 2 – 3 msk. Buffalo-sósa

Aðferð:

 1. Setjið kjúklingavængi, hveiti og krydd í plastpoka og hristið duglega eða þannig að hveiti þeki kjúklingavængina mjög vel.
 2. Setjið vængina á pappírsklædda ofnplötu og bakið í ofni við 180°C í 50 – 55 mínútur. Snúið vængjunum nokkrum sinnum á meðan þeir eru í ofninum.
 3. Eftir þann tíma setjið þá sósu yfir vængina og setjið aftur inn í 2 -3 mínútur, eða þar til vængirnir eru stökkir og ljúffengir. Berið þá fram með gráðostasósu og sellerí.

 Gráðostasósa

 • 200 g sýrður rjómi 18%
 • 3 msk. majónes
 • safi úr hálfri sítrónu
 • 100 g gráðostur
 • salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

Setjið allt í skál og maukið með töfrasprota eða setjið í matvinnsluvél. Maukið þar til sósan verður silkimjúk, kryddið til með salti og pipar.

Gráðostasósan góða.
Gráðostasósan góða. mbl.is/Eva Laufey
mbl.is