Svona þrífur þú eldhúsáhöldin á mettíma

Mikilvægt er að hugsa vel um heimilistækin svo þau endist …
Mikilvægt er að hugsa vel um heimilistækin svo þau endist sem lengst.

Við kunnum vel að meta allt sem sparar okkur tíma og flýtir fyrir í eldhúsinu, og þá sérstaklega við þrifin. Í amstri dagsins hafa fáir heilu klukkutímana til að dedúa við að skrúbba og skúra í eldhúsinu, og því höfum við tekið saman nokkur skotheld ráð sem eru til þess gerð að flýta fyrir þrifum á þeim eldhúsáhöldum sem fá hvað mesta notkun í eldhúsinu.

Hreinsum blandarann í snarhasti

Þetta góða ráð til að þrífa blandarann kemur frá rithöfundinum og lækninum Jill Grimes. Þegar þú hefur hent í einn góðan þeyting í blandaranum og ert búin að hella honum í glas er þjóðráð að hella smávegis af vatni og setja nokkra dropa af uppþvottalegi í blandarann. Skellið lokinu á og setjið blandarann af stað og látið hann þeyta sápuvatninu í 20 sekúndur. Svo skal skola blandarann vel og hann er hreinn og fínn fyrir næstu notkun.

Örsnögg leið til að þrífa örbylgjuofninn

Sneggsta leiðin til að þrífa örbylgjuofninn er að taka handfylli af pappírsþurrkum, bleyta vel í þeim, og setja þær inn í ofninn. Stillið örbylgjuofninn á hæsta hita og látið hann ganga í 3-5 mínútur. Úr blautu pappírsþurrkunum losnar gufa sem losar upp fitu og óhreinindi í ofninum. Þegar ofninn er búinn skal bíða þar til pappírsþurrkurnar hafa kólnað nægilega vel, og þá má nota þær til að strjúka innan úr örbylgjuofninum.

Kaffikannan þrifin í snatri

Ef hellt er upp á kaffi í kaffivél með gömlu góðu glerkönnunni kemur oft svarbrún húð innan í könnuna, sérstaklega þegar hún er látin standa lengi með kaffinu í. Til þess að þrífa þetta snögglega skal taka grútskítuga kaffikönnuna og fylla upp til hálfs með ísmolum, skera sítrónu í helming og kreista úr einum helming inn í könnuna. Bætið við tveimur matskeiðum af salti og hrærið í könnunni í tvær mínútur og þá eiga óhreinindin að losna auðveldlega af glerinu. Þegar þessu er lokið skal skola hana vel með vatni.

Skrúbbum steypujárnspottinn í flýti

Flestir vita að það á alls ekki að nota sápu á steypujárnspott eða pönnu og aldrei að skrúbba hana með stálull eða einhverju sem getur eyðilagt húðina innan í henni. Ef að þið getið ekki náð pönnunni nægilega hreinni með vatni og mjúkum uppþvottabursta þá má setja nokkrar matskeiðar af salti innan í pottinn og nudda varlega með pappírsþurrku og skola svo. Að lokum skal setja slettu af olíu og nudda innan í pönnuna til að halda henni olíuborinni og góðri fyrir næstu notkun.

Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt í eldhúsinu og …
Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt í eldhúsinu og finna sniðug ráð sem gagnast vel. mbl.is/IntelligentDesign
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert