Ofureinfalt melónusalat

Sætkrydduð hunangs-engifer dressingin fer afar vel með melónu og klettasalati, …
Sætkrydduð hunangs-engifer dressingin fer afar vel með melónu og klettasalati, og brómberjunum má skipta út fyrir bláber. mbl.is/KwestiaSmaku

Það er gott að eiga eina góða uppskrift af melónusalati í farteskinu, svona ef sólin skyldi nú loksins láta sjá sig. Okkur dreymir auðvitað öll um sæta sumardaga svo hægt væri að reka nefið út á sólpall og mögulega kveikja upp í grillinu. En við skulum ekki storka örlögunum með svona vangaveltum. Hér er allavega uppskrift að ljúffengu sumar salati, svona til vonar og vara, við sjáum svo hvað verður með blessað veðrið. Sætkrydduð hunangs-engifer dressingin fer afar vel með melónu og klettasalati, og brómberjunum má skipta út fyrir bláber ef svoleiðis liggur á fólki.

Ofureinfalt melónusalat

 • 1/3 hunangsmelóna
 • 1 bolli brómber
 • 1 poki klettasalat
 • 80 gr. fetaostur
 • 1 msk. ólífuolía

Hunangs-engifer dressing:

 • 2 msk. hunang
 • 2 msk. rifinn engifer
 • klípa af salti og svartur pipar
 • 1 msk. lime safi


Aðferð

 1. Byrjum á því að búa til hunangs-engifer dressingu. Setjið tvær matskeiðar af góðu hunangi í skál, rífið um það bil tvær matskeiðar af engifer út í. Notið heldur fíngert rifjárn með litlum götum. Kreistið að lokum safa úr einni límónu og bætið matskeið af safanum samanvið. Loks má strá klípu af salti yfir dressinguna og nýmöluðum svörtum pipar eftir smekk.

 2. Flysjið melónuna og skerið hana í teninga. Setjið því næst melónubitana út í dressinguna og veltið þeim vel upp úr leginum. Takið gott fat, stóran disk eða skál og stráið góðu lagi af klettasalati. Kryddið yfir með salti og pipar. Stráið því næst einni matskeið af góðri ólífuolíu yfir salatið.

 3. Setjið melónurnar í hunangs-engifer dressingunni yfir klettasalatið. Brytjið fetaostinn niður, stráið yfir melónuna og dreifið nýþvegnum brómberjum þar yfir.

 4. Njótið á góðum sumardegi.
mbl.is