Besti og fallegasti staður í heimi

Veitingastaðurinn Ottó matur og drykkur á Höfn í Hornafirði opnaði …
Veitingastaðurinn Ottó matur og drykkur á Höfn í Hornafirði opnaði um Hvítasunnuhelgina. mbl.is/Áslaug Snorradóttir

Hvað fær dagfarsprúða 101-fjölskyldu til að venda kvæði sínu í kross og elta drauma sína austur á land? Þau Auður Mikaelsdóttir og Andrés Bragason gerðu nákvæmlega það fyrr á þessu ári þegar þau fluttu á Höfn í Hornafirði og komu sér fyrir í elsta íbúðarhúsi bæjarins þar sem þau opnuðu veitingastað.

„Ég var í skiptinámi í Shanghai þegar hugmyndin kviknaði. Ég hafði aldrei farið svona langt að heiman og kannski var það fjarlægðin en á þessum tímapunkti kviknaði hugmyndin um að leita út fyrir höfuðborgarsvæðið og prófa eitthvað algjörlega nýtt,“ segir Auður spurð um aðdraganda þess að þau hjónin undu kvæði sínu í kross.

Andrés með glæsilega sjávarréttaveislu.
Andrés með glæsilega sjávarréttaveislu. mbl.is/Áslaug Snorradóttir

„Við erum bæði í veitingabransanum; ég er framreiðslumeistari og Andrés matreiðslumeistari, og okkur langaði að gera eitthvað á eigin spýtur,“ segir Auður sem að auki er með tvær gráður í listfræði auk MBA-prófs. „Við tók leitin og við fórum víða. Borgarnes var skoðað og Hveragerði... eiginlega skoðuðum við allt en fundum ekkert sem passaði algjörlega við það sem við höfðum í huga. Það er svo fyrir algjöra tilviljun að ég rekst á hús á Hornafirði og má segja að það hafi verið ást við fyrstu sýn. Andrés var þá staddur í Víetnam og hann flaug heim í gegnum Kuala Lumpur til að fara austur með mér og skoða húsið.“

Ottó matur og drykkur er staðsettur í elsta íbúðarhúsi Hafnar …
Ottó matur og drykkur er staðsettur í elsta íbúðarhúsi Hafnar í Hornafirði. mbl.is/Áslaug Snorradóttir

Staður fyrir fjölskyldur

Húsið sem um ræðir er elsta íbúðarhúsið á Höfn í Hornafirði og var byggt af Ottó Túliníus. „Þetta hús er bæði ofboðslega fallegt og sögufrægt. Búið var að gera það upp af Minjavernd og það var Páll V. Bjarnason arkitekt sem hannaði endurbæturnar. Þannig var það þegar við sáum það fyrst,“ segir Auður. Í húsinu hafði verið rekið kaffihús en Auður og Andrés ætluðu sér meira. Þau settu sitt mark á húsið og þar slær nú öflugt hjarta. „Við búum uppi á þriðju hæð þannig að við erum aldrei langt undan. Í þessu húsi fæddist fyrsti Hornfirðingurinn og það er einmitt það sem hugmyndafræði okkar gengur út á. Þetta er lifandi hús, fyrir fólk og fjölskyldur. Hér geturðu borðað, setið og notið. Við erum eins heiðarleg í þessu og við getum. Maturinn er hófstilltur í verði en við hvikum hvergi frá gæðunum og hafa gestir okkar einmitt verið mjög ánægðir með hvað þeir fá fyrir peninginn.“

Nýbakaðir snúðar eru í boði daglega.
Nýbakaðir snúðar eru í boði daglega. mbl.is/Áslaug Snorradóttir

Veitingastaðurinn var nefndur í höfuðið á manninum sem byggði húsið, Ottó, og við nafnið bætist svo matur og drykkur. Ekki hafi komið til greina að hafa nafnið á ensku enda samræmist það ekki hugmyndafræðinni á bak við staðinn.

Þegar Auður og Andrés áttuðu sig á því að ekkert bakarí væri á Höfn ákváðu þau að fjárfesta í forláta steinofni sem Auður segir hlæjandi að muni sjálfsagt seint borga sig upp en fyrir vikið geti þau boðið upp á nýbakaða snúða í morgunsárið og súrdeigsbrauð á daginn. Bakkelsi sé því í boði á Höfn og hafa viðtökurnar verið frábærar.

Andrés og Auður eru himinsæl á Höfn.
Andrés og Auður eru himinsæl á Höfn. mbl.is/Áslaug Snorradóttir

Hverfisbarinn í kjallaranum

Að auki er að finna forláta bar í kjallara hússins sem Auður segir að minni sig um margt á Kaffibarinn. „Barinn er mjög vinsæll og hingað kemur fólk og spilar, drekkur, horfir á fótboltann eða bara til að hittast.“ Það er því ljóst að koma þeirra til Hafnar hefur verið mikill hvalreki fyrir bæinn og vænta má þess að margir muni gera sér leið þangað í sumar enda virðist besta veðrið vera fyrir austan.

Hvað Auði og Andrési varðar þá sjá þau ekki eftir að hafa tekið þessa ákvörðun. „Við vissum ekkert hverju við ættum von á heldur fórum bara af stað og höfum gert okkar besta. Við höfum upplifað mikla manngæsku hérna og viðtökurnar hafa verið ótrúlegar. Við erum þakklát og auðmjúk. Þetta er fallegasti og besti staður í heimi.“

Mikil natni er lögð í hráefnisval.
Mikil natni er lögð í hráefnisval. mbl.is/Áslaug Snorradóttir
Maturinn þykir bæði bragðmikill og fagur.
Maturinn þykir bæði bragðmikill og fagur. mbl.is/Áslaug Snorradóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert