Nektarínur í baðkerinu

Uppáhaldsávöxtur Nönnu er nektarína sem er svo safarík að maður …
Uppáhaldsávöxtur Nönnu er nektarína sem er svo safarík að maður þyrfti helst að borða hana í baðkerinu. mbl.is/Gassi

Nönnu Rögnvaldardóttur þarf ekki að kynna fyrir neinum, enda fyrir löngu þekkt sem matmóðir okkar Íslendinga. Það er fátt sem Nanna leggur ekki í við eldamennsku, enda með afbrigðum sniðug og úrræðagóð og þar að auki með víðtæka þekkingu á matargerð og matarmenningu. Nanna vinnur sem ritstjóri hjá Forlaginu og er matreiðslubókahöfundur í frístundum, en það eru ófá eldhús á Íslandi þar sem ekki kúrir bók eftir Nönnu í hillu nú eða opin við eldavélina, og blaðsíðurnar blettóttar af notkun. Við fengum Nönnu í nokkrar laufléttar spurningar.

Kaffi eða te: Kaffi og mikið af því. En það kemur fyrir að ég fer inn í tetímabil, það er reyndar langt síðan síðast.

Hvað borðaðir þú síðast? Salat með gæsabringu, löngu með krömdum kartöflum, hollandaise-sósu og ís með rabarbara á Seli í Grímsnesi.

Hin fullkomna máltíð: Ég held að hvaða máltíð sem er geti nálgast fullkomnun í réttum félagsskap. En ef einungis er litið á matinn – ætli ég hafi ekki komist næst fullkomnun í fyrrasumar á Steiereck í Vínarborg. Þar borðaði ég frábæra sjö rétta máltíð (raunar voru réttirnir miklu fleiri) þar sem hver einasti réttur kom á einhvern hátt á óvart. Það sem mér fannst þó best af öllu var þjónustan, sem var algjörlega gallalaus, fáguð en samt frjálsleg. Ég met veitingahús oft dálítið eftir því hvernig þau taka á móti miðaldra konu sem er ein á ferð og þarna hefði ég gefið einkunnina 12 af 10 mögulegum. Það eru svona hlutir sem koma veitingahúsum á lista yfir þau tíu bestu í heimi.

Hvað borðar þú alls ekki? Ég man ekki eftir neinu. Engum algengum mat að minnsta kosti, þótt það sé kannski eitt og annað sem ég er ekkert sérstaklega að sækjast eftir. Núna sneiði ég reyndar hjá sykri en það er heilsunnar vegna.

Avókadó á ristað brauð eða pönnukökur með sírópi? Ef ég væri ekki hætt að borða sykur myndi ég velja pönnukökurnar.

Súpa eða salat? Súpa á veturna, salat á sumrin. Og eins og veðrið hefur verið núna er ég enn í súpugírnum.

Uppáhaldsveitingastaðurinn: Ég fer mjög sjaldan út að borða hér á landi nú orðið og get eiginlega ekki sagt að ég eigi mér uppáhaldsstað.

Besta kaffihúsið: Oftast er það félagsskapurinn sem skiptir mig mestu, ekki kaffið eða umhverfið. þegar ég er ein á ferð erlendis hef ég mestan áhuga á umhverfinu og stemmingunni og reyni þá að leita uppi gömul, klassísk og fín kaffihús, oft ofhlaðin gyllingum og skrauti – staði eins og Café Majestic í Porto, New York Café í Búdapest, Pedrocchi í Padúa – svo að nokkur uppáhöld séu nefnd.

Salt eða sætt? Salt.

Fiskur eða kjöt? Fiskur. Mér finnst kjöt yfirleitt gott en gæti samt alveg hætt að borða það. En ekki fisk.

Hvað setur þú á pizzuna þína? Það fer eftir því í hvernig skapi ég er. Ef mér líður vel gætu það verið næfurþunnar kartöflusneiðar, rósmarín og gráðostur.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur borðað? Mér finnst eiginlega enginn matur skrítinn. En eitt af því óvenjulegasta var kannski gljáðu andatungurnar sem Fuchsia Dunlop eldaði og bar fram á matarráðstefnu í Oxford fyrir nokkrum árum. Þær komu á óvart.     

Matur sem þú gætir ekki lifað án: Ég ætti erfitt með að komast af án eggja.

Uppáhaldsdrykkur: Ég drekk aðallega kranavatn og kaffi. En Calvados er allra meina bót.

Besta snarlið: Ef ég fæ lítinn disk með nokkrum góðum ostum og kannski hnetum, berjum eða gráfíkjumauki er ég alsæl.

Hvað kanntu best að elda? Fisk. Eða mér finnst það alla vega.

Hvenær eldaðirðu síðast fyrir einhvern? Ég fékk saumaklúbbinn í mat á dögunum og bauð upp á hægeldaðar grísakinnar í marokkóskri sósu með fersku tagliatelle.

Uppáhaldseldhúsáhaldið: Það gagnlegasta er skeið til að smakka með. En líklega held ég mest upp á Sage-matvinnsluvélina mína. Rosalega kraftmikil og fullkomin.

Besta uppskriftabókin: Ég á hátt í tvö þúsund matreiðslubækur. Þær eru auðvitað ekki allar jafngóðar en ég treysti mér alls ekki til að nefna einhverja eina.

Sakbitin sæla: Nýsteiktar kardimommukleinur, nánast beint upp úr pottinum.

Uppáhaldsávöxtur: Nektarína sem er svo mjúk og vel þroskuð að maður rífur hana í sundur með höndunum í stað þess að skera hana og svo safarík að maður þyrfti helst að borða hana í baðkerinu.

Besti skyndibitinn: Ég kaupi af og til skyndibita ef ég er stödd einhvers staðar fjarri heimilinu og er svöng. En ég man ekki eftir neinum sem ég myndi gera mér ferð að heiman til að kaupa. Jú, kannski pizzurnar á Eldofninum, sem er nú bara í þarnæsta húsi.

Ef þú fengir Vigdísi Finnbogadóttur í mat, hvað myndir þú elda? Ég veit að Vigdís hefur dálæti á frönskum mat svo að ég myndi velja eitthvað franskt; kannski coq au riesling og súkkulaði-pots de creme. Forrétturinn – ja, eitthvað sem mér dytti í hug að gera úr ferskasta og besta grænmeti sem ég fengi þann daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert