Heitustu eldhústrendin 2018

Við höfum tekið saman heitustu trendin sem af er ári, …
Við höfum tekið saman heitustu trendin sem af er ári, og þau útlit sem spáð er miklum vinsældum út árið 2018. mbl.is/pinterest

Það er gaman að skoða fallega hönnuð eldhús og pæla í nýjustu tískustraumunum. Við mælum þó að sjálfsögðu með því að halda sig við sinn persónulega smekk og leggja fremur áherslu á tímalausa og nytsamlega hönnun frekar en að elta tískutrend á röndum. Það er afskaplega þreytandi og eins og við vitum öll þá er það sem þykir smart í dag orðið lummulegt á morgun. Það er samt alltaf gaman að vera með á nótunum, spá og spekúlera og fá skemmtilegar hugmyndir að klassískri hönnun sem má ef til vill nýta sér. Við höfum því tekið hér saman heitustu trendin sem af er ári, og þau útlit sem spáð er miklum vinsældum út árið 2018.

Marmari með grófum æðum
Flestir kunna að meta hvítan marmara og hefur hann átt miklum vinsældum að fagna undanfarið, en árið 2018 fögnum við fjölbreytileikanum. Nú þykir svartur ásamt lituðum marmara mjög inn. Flottast þykir að hafa gróft munstur í marmaranum, þeim mun breiðari sem æðarnar eru, því betra.

mbl.is/elledecor
mbl.is/KlassikCopenhagen


Klæðning með áfastri hillu

Það þykir einstaklega flott að klæða veggi í eldhúsum fyrir ofan eldhúsbekkina upp til hálfs, og kallast slíkt „backsplash“ á ensku. Þetta er ekki bara fyrir augað heldur er þetta afskaplega nytsamlegt til að verja veggi fyrir matarslettum og fitu. Oftast er þessi klæðning úr efni sem auðvelt er að þrífa, tildæmis flísum eða náttúrusteini. Til að bæta um betur þykir nú flottast að hafa þessa klæðningu með áfastri hillu. Ef hægt er að komast hjá því að hafa efri skápa, þá þykir þetta allra flottast og fallegt að stilla eftirlætiseldhúsáhöldum, matreiðslubókum og öðru punti upp á hilluna.

mbl.is/BenoitLinero

Höldulausar eldhúsinnréttingar

Eldhúsinnréttingar með höldum hafa haldið velli síðustu ár, en nú þykir best að hafa eldhússkápa og skúffur höldulausar svo yfirborðið verði alveg flatt og án allra aukahluta. Þessar innréttingar eru mjög mínímalískar og koma einstaklega vel út í dökkum, möttum litum.

mbl.is/andshufl

Antíkblöndunartæki

Í gömlu eldhúsi gæti þetta komið lummulega út, en að setja gamaldags blöndunartæki í nútímalegt eldhús kemur afskaplega fallega út. Að blanda höldulausum eldhúsinnréttingum við steinklæðningu með áfastri hillu við antíkblöndunartæki er alveg toppurinn og útkoman verður tímalaus og falleg.

mbl.is/Perrin&Rowe

Terrazzo-borðplötur

Terrazzo er eins konar mósaík gólf- og veggefni þar sem litlum molum af marmara eða graníti er dreift í steypu eða sement og fægt þar til gljáir. Þetta ítalska gólfefni þótti mjög smart á árum áður og er nú að ganga í endurnýjun lífdaga. Sérstaklega þykir flott ef marmaramolarnir eru stórir og í mismunandi litum. Terrazzo var oft notað í gólfefni og flísar, en nú þykir smartara að nota það í borðplötur og klæðningu upp á veggi í eldhúsi.

mbl.is/ApartmentTherapy


Mött áferð

Nú er allra flottast að hafa eldhúsinnréttingar og borðplötur í mattri áferð, og getum við því kvatt innréttingar sprautaðar í háglans sem allir eru fyrir löngu orðnir þreyttir á. Í staðinn fyrir sprautulakkaða eldhússkápa í háglans, gljáandi kopar og marmara er allra heitast að hafa mattar marmaraplötur í eldhúsinu, skýjaða steinsteypu og hráan við.

mbl.is/Archiproducts


Innfelldir vaskar

Dagar eldhúsvaska úr ryðfríu stáli eru taldir og nú þykir mjög móðins að hafa innfelldan vask í borðplötuna, þá sérstaklega úr náttúrusteini. Hvort sem borðplatan er úr marmara, náttúrusteini eða steinsteypu falla þessir vaskar fallega inn í innréttingarnar og gefa eldhúsinu stílhreint og fágað yfirbragð.

mbl.is/Scott&Scott
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert