Tjúllaðir þema-veitingastaðir

mbl.is/JurassicWorld

Hver elskar ekki veitingastaði og kaffihús í góðu þema? Til er haugur af veitingastöðum og börum um allan heim sem settir eru upp í þema af frægum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Það bara hlýtur að vera eins og að detta inn í góða bíómynd að skreppa í hádegismat á einhvern af þessum stöðum.

Stranger Things: Upside Down í Chicago

Aðdáendur Netflix-seríunnar Stranger Things geta tekið gleði sína því það er hægt að heimsækja þennan bar sem heitir Upside Down, en þar má meðal annars finna kúluspil sem er búið að líma upp í loftið svo það snýr á hvolf, og stafrófsvegg með jólaseríu eins og finnst í þáttunum. Bjóða þeir upp á Eleven’s Eggo’s-krapdrykk sem ku vera einstaklega bragðgóður.

mbl.is/UpsideDown


Breaking Bad: Walter’s Coffee Rostery í Tyrklandi

Í Istanbúl finnst kaffihús sem heitir Walter’s Coffee Roastery og er það í þema Breaking Bad-sjónvarpsþáttanna vinsælu. Lítur kaffihúsið út eins og rannsóknarstofa, allir drykkir eru bornir fram í tilraunaglösum og starfsfólk gengur um í gulum gúmmígöllum líkt og þeir félagar Walter og Jesse.

mbl.is/Walters

Harry Potter: The Lockhart í Toronto

Þessi skemmtilegi bar í Toronto er í þema Harry Potter. Þar má panta drykk sem heitir Shacklebolt og Tinworth. Á fyrsta þriðjudegi hvers mánaðar er leikjakvöld og er þá bara spurt spurninga upp úr sögunum um galdrastrákinn knáa og trekkir barinn aðdáendur víðs vegar að.

mbl.is/TheLockhart


Orange Is the New Black: Litchfield Penitentiary Cafeteria 
í Singapore

Til þess að fagna fjórðu seríu af þáttunum vinsælu breytti Netflix litlum veitingastað í Singapore í mötuneytið úr Litchfield-fangelsinu þar sem þær dvelja í þáttunum. Þar var boðið upp á eðalfangelsismat sem Red gæti verið stolt af. Staðurinn var þó aðeins opinn í tvo daga til að halda upp á nýju seríuna.

mbl.is/HBO

Game of Thrones: All Men Must Dine í London

Á þessum skemmtilega veitingastað gátu aðdáendur Game of Thrones-bókanna og -þáttanna borðað eins og kóngar að miðalda sið. Var það Andaz Liverpool Street-hótelið sem opnaði þennan veitingastað, þó aðeins í þrjá daga, til að fagna fjórðu seríu þáttanna.

mbl.is/AllMenMustDine

Tim Burton: Beetle House í New York

Ef einhverjjir hafa hug á að detta inn í heim leikstjórans skemmtilega, Tim Burton, geta þeir heimsótt Beetle House í New York. En staðurinn vísar í eina af frægustu myndum leikstjórans, Beetle Juice. Þar er boðið upp á rétti sem heita meðal annars „Martröð“, „Hæ Lísa í Undralandi“, „Sweeney-kjöt“ og „Edda Klippikrumluborgara“.

mbl.is/BeetleHouse


Jurassic Park: Jurassic World í Japan

Jurassic World Café má til dæmis finna í Japan, en þar er boðið upp á hamborgara í svörtu brauði og er hann borinn fram á diski með klórförum eftir risaeðlu. Kaffið er svo borið fram með risaeðlu-listaverkum. Þetta kaffihús er bara opið í takmarkaðan tíma, eða frá 5. júlí – 6. ágúst í Tokyo og svo aftur frá 10. ágúst – 30. september í Osaka.

mbl.is/JurassicWorld
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert