„Kemur á óvart hvað fólk er heiðarlegt“

Fiskbúðin góða fór ekki fram hjá neinum.
Fiskbúðin góða fór ekki fram hjá neinum. mbl.is/VsV

Snjöllustu fiskbúð landsins er að finna á Tálknafirði en um er að ræða sjálfsafgreiðsluverslun þar sem viðskiptavinir geta annaðhvort skilið eftir pening eða lagt inn á bankareikning. Matarvefurinn átti leið um Tálknafjörð og lék forvitni á hvort fiskbúðin væri enn á sínum stað og hvernig reksturinn gengi.

Það eru hjónin Þór Magnússon og Guðlaug Björnsdóttir sem eiga heiðurinn að versluninni en Þór segir hugmyndina hafa kviknað vegna stöðugra fyrirspurna um ferskan fisk í bænum.

„Fólk var alltaf að spyrja hvar hægt væri að kaupa ferskan fisk og mér fannst þetta ekki hægt,“ segir Þór um tilurð verslunarinnar. Upphaflega hafi verið um tilraun að ræða og þau hjónin ekki átt von á miklu. „Það komu hingað tékkneskar stelpur sem voru ekki með neina peninga á sér en lofuðu að greiða. Ég ákvað að treysta þeim og fylgdist svo með. Tveimur vikum seinna kom greiðslan svo og þannig hefur þetta verið. Hér borga allir eins ótrúlegt og það er.“

Hægt er að kaupa ýmsar gerðir af nýveiddum fiski en einnig er hægt að kaupa tilbúna fiskisúpu og fiskibollur, auk nýbakaðs rúgbrauðs. Það er Guðlaug sem á heiðurinn að matargeðinni og þykir maturinn mikið lostæti. Smakk er í boði fyrir væntanlega kaupendur en oftast klárast fiskibollurnar strax þar sem krakkarnir í bænum eiga það til að koma við og fá sér í gogginn.

„Þetta klárast allt,“ segir Guðlaug hlæjandi og bætir við að það geri ekkert til. „Þetta er allt fulleldað og þarf bara að hita upp þannig að þetta er í góðu lagi.“

Þau hjónin segja þetta oðið ærið verkefni. „Þetta er þriðja sumarið sem við gerum þetta og þetta er orðið drjúgt,“ segir Þór en þau halda þó ótrauð áfram enda eitt það alsnjallasta framtak sem sést hefur hér á landi og væri gaman að sjá víðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert