Grafinn silungur/lax Laugu

Það er ekkert að þessu...
Það er ekkert að þessu... mbl.is/Guðlaug Sigurðardóttir

Hin eina sanna Guðlaug Sigurðardóttir á það til að græta samstarfsfélaga sína hjá Árvakri með eldamennskusögum. Með stakri lagni tókst útsendara Matarvefjarins að ná þessari uppskrift upp úr henni en hún þykir með þeim betri á landinu.

Að sögn Guðlaugar, eða Laugu eins og hún er alla jafna kölluð, skiptir engu hvort notaður er silungur eða lax.

Grafinn silungur/lax Laugu

Ég fann uppskrift á vefnum og gerði hana að minni, eins og flestar aðrar uppskriftir sem ég styðst við.

Grafinn lax 

  • 1 laxaflak (eða urriði eða silungur en betra er að flökin séu þykk)
  • 150 g púðursykur (ég hef minnkað sykurmagnið töluvert miðað við aðrar uppskriftir)
  • 250 g gróft salt
  • 1 matsk. ferskt, saxað dill, eða nóg til að hylja flakið alveg
  • ½ matsk. kórianderfræ, mulin
  • ½ matsk. fennelfræ, mulin (eða fersk, fínt söxuð fennelrót)
  • 1½-2  cl vodka

Aðferð:

  1. Þerrið flakið vel, hellið helmingnum af vodka í bakka, leggið flakið ofan á og hellið hinum helmingnum yfir á meðan kryddblandan er undirbúin. Má gjarna liggja lengur í vodkanum og snúa af og til.
  2. Takið flakið upp úr vodkanum eftir drjúga stund og þerrið.
  3. Stráið þriðjungi af saltinu á bakka og leggið laxaflakið ofan á það.
  4. Blandið sykrinum og afganginum af saltinu saman og stráið yfir flakið. Nuddið vel inn í fiskinn. Stráið þurrkryddunum jafnt yfir allt flakið og látið þekja vel. 
  5. Pakkið flakinu þétt t.d. í álpappír og látið standa í a.m.k. 16 tíma. Snúið svo flakinu og látið standa í aðra 16 tíma.
  6. Á þessum tímapunkti er flakið tilbúið til átu eða í frost og njóta þegar maður er í stuði fyrir það. 
  7. Gott að skera í næfurþunnar sneiðar á meðan örlítið frost er í fiskinum. Berið fram með ferskum dillgreinum, sósu og ristuðu brauði ef vill. 

Sósa

  • 200 g grísk jógúrt
  • 2 matsk. Dijon-sinnep
  • 1 matsk. hunang (eða eftir smekk)
  • 1 matsk. ferskt saxað dill, eða þurrkað

Það er ágætt að skafa aðeins af kryddblöndunni á fiskinum og setja út í sósuna. 

Fiskurinn þykir mikið sælgæti.
Fiskurinn þykir mikið sælgæti. mbl.is/Guðlaug Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert