Alvöru Royalista-kaka

mbl.is/Nanna Rögnvaldar

Þessi dásemdarsumarterta er úr smiðju Nönnu Rögnvaldar sem segist hafa gefist upp á því að bíða eftir sumrinu. Kakan sé algjört sælgæti en sjálf elski hún fersk ber og Royal-búðingsduft. 

„Trikkið við þessa er Royal-búðingsduft. Ég nota dálítið búðingsduft bæði í jarðarberja- og súkkulaðilagið. Það má sleppa því en þá verður rjóminn mun linari og erfiðara að skera tertuna. Og svo gefur það svo gott nostalgíubragð fyrir okkur Royal-aðdáendur,“ segir Nanna.

Sannkölluð sumarterta (ef það skyldi nú koma)

Botninn

  • 4 egg
  • 125 g sykur
  • 1 tsk. vanilluessens
  • 160 g hveiti
  • 40 g kartöflumjöl
  • 1 tsk. lyftiduft

Á milli

  • 200 g frosin jarðarber
  • 400 ml rjómi
  • 6 msk. Royal-jarðarberja- eða vanillubúðingsduft
  • 350 g fersk jarðarber

Ofan á

  • 150 g hvítt súkkulaði
  • 300 ml rjómi
  • 3 msk. Royal-vanillubúðingur
  • 350 g fersk jarðarber
  • 25 g pistasíuhnetur (má sleppa)

Aðferð:

Ég byrjaði á að baka ósköp hefðbundna tertubotna – eða botn, því að ég bakaði einn en klauf hann svo í sundur; það má líka baka þetta í tveimur formum. Alla vega, ég hitaði ofninn í 190°C. Smurði meðalstórt smelluform, klippti út hring úr bökunarpappír og setti á botninn. Svo tók ég fjögur egg og braut þau í hrærivélarskálina, bætti við 125 g af sykri og 1 tsk. af vanilluessens og þeytti þetta mjög vel saman. Svo vigtaði ég 160 g af hveiti og 40 g af kartöflumjöli, sigtaði þetta yfir eggjahræruna ásamt 1 tsk. af lyftidufti, blandaði því gætilega saman við með sleikju, setti deigið strax í formið og bakaði í um 20 mínútur.  Ég lét botninn kólna á grind og klauf hann svo sundur í tvo botna.

Þá var það fyllingin: Ég byrjaði á að taka 200 g af frosnum jarðarberjum, lét þau hálfþiðna og maukaði þau svo. Þeytti 400 ml af rjóma og þeytti 6 msk. af Royal-búðingsdufti saman við (jarðarberja- eða vanillu-).

Svo blandaði ég berjamaukinu saman við með sleikju (eða með því að láta hrærivélina ganga á minnsta hraða).

Ég smurði svo jarðarberjarjómanum á neðri kökubotninn, dreifði 350 g af ferskum jarðarberjum yfir …

… og svo lagði ég hinn botninn ofan á.

Og þá það sem fór ofan á tertuna: Ég bræddi 125 g af hvítu súkkulaði í vatnsbaði með svona 50 ml af rjóma og lét það kólna dálítið. Stífþeytti svo 250 ml af rjóma með 3 msk. af Royal-vanillubúðingsdufti og blandaði hvíta súkkulaðinu saman við með sleikju.

Ég smurði svo rjómanum á efri botninn, raðaði 350 g af jarðarberjum ofan á og saxaði 25 g af hvítu súkkulaði og 25 g af pistasíum (en þeim má sleppa) og stráði yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert