Guðdómleg gulrótakaka með karamelluðum ferskjum

Rjómaostkremið passar eins og flís við rass og karamellaðar ferskjur …
Rjómaostkremið passar eins og flís við rass og karamellaðar ferskjur eru algerlega til að toppa þessa köku. mbl.is/callmecupcake

Ferskjur og gulrætur hljómar kannski eins og skrýtin blanda, en þessi kaka er gjörsamlega trufluð. Við segjum það og skrifum. Í deigið fara maukaðar ferskjur í bland við rifnar gulrætur. Rjómaostkremið passar eins og flís við rass og karamellaðar ferskjur eru algerlega til að toppa þetta rugl, og að við tölum nú ekki um gómsætu sykurbráðina sem fær að leka niður með hliðum kökunnar. Við segjum bara einn, tveir og baka! Þið sjáið ekki eftir því, við lofum.

Guðdómleg gulrótakaka með karamelluðum ferskjum

Í kökuna fer:

 • 150 gr. saltað smjör
 • 3 stór egg
 • 135 gr. sykur
 • 65 gr. púðursykur
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 180 gr. hveiti
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 1 og ½ tsk. matarsódi
 • ¼ tsk. sjávarsalt
 • 1 tsk. kanill
 • 250 gr. gulrætur
 • 1 niðursuðudós eða um 410 gr. af ferskjum í sírópi (2/3 bollar af maukuðum ferskjum eru notaðar í kökuna, afgangurinn fer í fyllinguna)

Í kremið fer:

 • 150 gr. mjúkt smjör
 • 200 gr. rjómaostur við stofuhita
 • 150 gr. flórsykur
 • 1 tsk. vanilludropar

Í fyllinguna fer:

 • Afgangurinn af maukuðum ferskjum

Karamellaðar ferskjur:

 • 3-4 ferskar ferskjur
 • 3 msk. smjör
 • 3 msk. púðursykur   

Aðferð

 1. Hitið ofninn í 175 gráður. Takið tvö kökumót sem er um 15 sentímetrar að breidd og smyrjið að innan með smjöri.

 2. Bræðið smjörið í potti og leyfið því að kólna. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er létt og ljós. Bætið þá við brædda smjörinu og vanilludropum og hrærið þar til allt er vel blandað.

 3. Blandið saman í skál hveiti, lyftidufti, matarsóda, salti og kanil. Bætið þessum þurrefnum svo saman við deigið í hrærivélaskálinni, rólega og í litlum skömmtum.

 4. Flysjið gulræturnar og rífið þær niður með rifjárni. Setjið ferskjurnar úr niðursuðudósinni í blandara eða matvinnsluvél og maukið vel.

 5. Bætið rifnu gulrótunum saman við deigið og 2/3 bolla af maukuðu ferskjunum við deigið og hrærið varlega saman við með sleif eða sleikju. Skiptið deiginu upp í tvo jafna hluta og hellið í kökuformin tvö.

 6. Stingið formunum inn í ofn og bakið í 40 – 45 mínútur eða þar til hægt er að stinga prjóni í kökuna og hann kemur hreinn út. Þegar kökurnar eru tilbúnar skal leyfa þeim að kólna í formunum í um 20 mínútur. Losið þær svo úr forminu og leyfið þeim að kólna algerlega á grind.

 7. Þá er næst að laga kremið. Hrærið smjörið þar til það er ljóst og létt. Bætið þá saman við rjómaostinum, flórsykri og vanillu og hrærið þar til blandan er slétt og mjúk. Stingið svo kreminu inn í ísskáp.

 8. Takið stóran hníf og skerið báðar kökurnar í helminga svo úr verða fjögur lög af kökubotnum. Setjið fyrsta lagið á kökudisk. Takið kremið úr ísskápnum og smyrjið lagi á neðsta kökubotninn. Ofan á það fer svo lag af ferskjumauki. Þá leggjum við annað lag ofan á, smyrjum kremi og svo ferskjumauki ofan á það og svo koll af kolli þar til allar kökurnar sitja hver ofan á annarri allar með lag af kremi og ferskjumauki á milli.

 9. Að lokum skal smyrja þunnu lagi af kremi meðfram hliðum og ofan á kökuna. Ekki örvænta þótt kremið verði búið, það er ekkert smartara en nakin kaka með þunnu lagi af kremi meðfram hliðunum. Stingið kökunni inn í ísskáp á meðan við útbúum gúmmúlaðið sem fer ofan á.

 10. Takið fersku ferskjurnar og skerið þær í tvennt og hreinsið kjarnann burt. Hitið smjör á pönnu við meðalhita. Bætið því næst púðursykri á pönnuna. Þegar sykurinn er bráðnaður saman við smjörið má bæta ferskjunum saman við og velta þeim upp úr sykurbráðinni í 2-3 mínútur svo þær fái góða karamelluhúð utan á sig. Leyfið þessu svo á kólna á pönnunni.

 11. Takið kökuna út úr kælinum og raðið karamelluðu ferskjunum ofan á og leyfið sykurbráðinni að renna niður með hliðum kökunnar. Ef þið viljið skreyta hana enn frekar má bæta við ferskum brómberjum, það fer afar vel með kökunni. Njótið!
Karamellaðar ferskjur raðast ofan á og sykurbráðin rennur niður með …
Karamellaðar ferskjur raðast ofan á og sykurbráðin rennur niður með hliðum kökunnar. Einnig má bæta við ferskum brómberjum, það fer afar vel með. mbl.is/callmecupcake
mbl.is