Lambalæri sem ömmurnar elska

mbl.is/Bon Appetit

Kryddin sem notuð eru í þessari uppskrift hafa þann magnaða kraft að geta flutt íslenska fjallalambið sem leið liggur yfir ókunnar lendur Austurlanda fjær þar sem ævintýrin gerast. Það er að minnsta kosti engin grámygla yfir þessari uppskrift enda hvernig væri það hægt með svona ævintýralega kryddblöndu?

Matarvefurinn hafði spurnir af ömmuklúbbi nokkrum sem elskar víst þennan rétt og eldar við hvert tilefni. Við seljum það ekki dýrar en við keyptum en skorum á ykkur að prófa. 

Austurlenskt lambalæri

Stórt lambalæri

Krydd á lærið

  • Salt og nýmalaður pipar
  • 2 msk. kumminfræ
  • 2 tsk. kúmenfræ
  • 2 tsk. kóríanderfræ
  • 2 lítil chilíaldin, smátt söxuð
  • 4 hvítlauksrif, fínt söxuð
  • ½ bolli ólífuolía
  • 1 msk. paprikuduft
  • ½ tsk. kanill

Kryddlögur

  • ½ tsk. kúmenfræ
  • ½ tsk. kóríanderfræ
  • ¼ bolli ólífuolía
  • 1 stór laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 1 msk. chilíduft
  • 1 tsk. túrmerik
  • ½ tsk. nýmalaður svartur pipar
  • ¼ tsk. kanill
  • 1 dós niðursoðnir tómatar, brytjaðir
  • 4 bollar kjúklingasoð (úr lífrænum kjúklingakrafti)
  • sjávarsalt

Meðlæti

  1. Grænmetissalat með sultuðum rauðlauk og sítrónum.
  2. Hreinsið fituna af lærinu og skerið grunnar rifur í kjötið. Nuddið það vel með salti og pipar og leggið til hliðar á grind.
  3. Myljið kummin-, kúmen- og kóríanderfærin í mortéli, setjið í skál ásamt chilí, hvítlauk, olíu, papriku og kanil, hrærið vel saman og smyrjið á lærið. Hyljið lærið (t.d. með bökunarpappír) og látið það standa á grindinni í 12-24 tíma á köldum stað, en að lokum a.m.k. klukkutíma við stofuhita.
  4. Hitið ofninn í 230°C og grillið lærið þar til það er vel brúnað allan hringinn, 20-25 mínútur. Takið lærið úr ofninum og látið það standa meðan þið lækkið hitann í 120°C.
  5. Á meðan er kúmen- og kóríanderfræið fyrir kryddlöginn mulið.
  6. Hitið olíuna í stórum potti og látið laukinn malla þar til hann er orðinn glær, í 5-7 mínútur. Bætið út í chilí, túrmeriki, svörtum pipar, kanil og möluðu fræinu. Látið krauma í 2-3 mín., bætið tómötunum og soðinu út í, saltið hæfilega og sjóðið um stund.
  7. Setjið lambalærið í ofnpott og hellið leginum yfir, bætið við vatni ef lögurinn dugar ekki til að ná hálfa leið upp á hliðarnar. Lokið pottinum og látið lærið malla í ofninum í 4½ - 5½ tíma. Snúið lærinu einu sinni á miðjum steikingartímanum. Takið lærið upp úr pottinum og hyljið með álpappír til að halda því heitu meðan þið búið til sósuna.
  8. Sjóðið löginn niður við meðalhita þar til hann hefur minnkað um helming, 25-30 mín. Smakkið sósuna og saltið eftir smekk. Ausið henni síðan yfir lærið og berið það fram með grænmetissalatinu.
  9. Þennan rétt má útbúa tveimur dögum fyrir fram og hita upp.

Heimild: Bon Appetit

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert