Vinsæl og veit af því

Ekki amaleg elska...
Ekki amaleg elska... Morgunblaðið/TM

Sumar bombur eru þess eðlis að fólk hreinlega stendur á öndinni af hrifningu og finnur hjá sér knýjandi þörf til að deila dásemdinni með umheiminum. Þessi elska hefur ekki farið varhluta af fylgifiskum frægðarinnar enda hefur hún tröllriðið heimsbyggðinni undanfarin misseri og sér ekki fyrir endann á sigurför hennar.

Kakan var vinsælasta kaka Matarvefsins árið 2017 og stefnir í að hún verði það einnig í ár.

Dyggur lesandi sendi okkur þessa fallegu mynd af tertunni í delux-afmælisútgáfu með súkkulaði og saltkaramellukremi.

Djúsí súkkulaðikaka

  • 2 bollar hrásykur eða venjulegur
  • 1¾ bolli hveiti
  • ¾ bolli ósætt kakó
  • 1½ tsk. lyftiduft
  • 1½ tsk. matarsódi
  • 1 tsk. salt
  • 2 egg
  • 1 bolli mjólk
  • ½ bolli olía (ég notaði kókosolíu)
  • 2 tsk. vaniludropar
  • 1 bolli soðið vatn

Forhitið ofninn í 175 gráður.

Smyrjið kökumótið með smjöri eða olíu. Annaðhvort má gera eina væna tertu eða setja deigið í tvö minni mót og hafa hana tveggja laga.

Í stóra skál skal blandað saman sykri, hveiti, kakói, matarsóda, lyftidufti og salti. Hrærið þurrefnunum saman.

Næst fara eggin, mjólk, olían og vanillan saman við. Hrærið þessu vel saman. Að lokum fer vatnið saman við. Deigið verður nokkuð þunnt.

Hellið deiginu í formið eða formin og bakið 30-35 mínútur eftir þykkt tertunnar. Gott er að nota prjón eða tannstöngul til að stinga í tertuna. Hún er tilbúin þegar prjóninn kemur deiglaus út.

Kælið kökuna í 10 mínútur áður en kakan er fjarlægð úr mótinu. Látið tertuna kólna alveg áður en kremið er sett á en það má nota nánast hvaða kremuppskrift sem er.

Athugið að ef það er einn stór botn bakaður þarf að baka hann 10-15 mínútum lengur.

Krem

  • 350 g smjör
  • 350 g flórsykur
  • 250 g rjómaostur
  • 100 g kakó
  • 200 g brætt suðursúkkulaði
  • 2 msk. kaffi, líkjör eða vatn eftir tilefni.
  • 1 tsk. salt
  • 1 msk. rjómi
  • 1 dl saltkaramellusósa – tilbúin eða heimagerð.

Aðferð:

Þeytið smjörið vel upp (hafið það við stofuhita þegar þið hefjist handa).

Sáldrið flórsykrinum rólega saman við.

Bætið rjómaostinum (við stofuhita) saman við og þeytið vel.

Takið einn þriðja af kreminu frá.

Bætið við eftirstöðvarnar kakói, bræddu súkkulaði og vökva.

Kremið sem tekið var frá fær svo smáaðstoð frá vini sínum saltkaramellunni. Bætið sósunni varlega við með sleikju og bætið við salti ef ykkur finnst vanta. Þetta krem fer svo á milli botnanna tveggja.

Samsetning:

Gætið þess að kökubotnarnir hafi kólnað alveg. Það má vel gera þá með dags fyrir og pakka þeim inn í plastfilmu eða loftþéttan poka/box til að tryggja að botnarnir þorni ekki upp.

Setjið saltkaramellukremið á milli botnanna. Athugið að þeir eru mjög þykkir og þola vel af kremi. Því næst er kakan hulin með súkkulaðikreminu og skreytt með sköpunargáfu og gleði! Auðvelt leið er að skella glitrandi pappastjörnum á kökukrúttið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert