Heimagerðir einhyrningaíspinnar

mbl.is/Íris Pétursdóttir

Einhyrningamatur er ákaflega vinsæll enda þykir hann afskaplega fallegur og eru börn sérstaklega sólgin í hann. Hér gefur að líta heimagerða íspinna sem eru sannarlega í hollari kantinum og ættu því að gleðja foreldra. 

Það er Íris Pétursdóttir á Infantia.is  sem á heiðurinn af þessari uppskrift sem við hvetjum ykkur til að prófa. 

Heimagerðir einhyrningaíspinnar

Ég kalla þessa fallegu íspinna unicorn-pinna af því litirnir í þeim minna á þemaliti einhyrninga. Þessir eru hollir og góðir til að kæla sig aðeins á sólríkum sumardögum, sóma sér vel í barnaafmælinu, í eftirrétt hvaða dag vikunnar sem er og þá má meira að segja borða í morgunmat, svo hollir eru þeir!

  • 3 dl hreint skyr
  • 1 msk. Sweet Like Syrup frá Good Good
  • 10 dropar vanillu-stevia (má sleppa)
  • 1/4 tsk. vanilludropar
  • 2 msk. sykurlaus jarðarberjasulta 
  • 2 msk. sykurlaus bláberjasulta 
  • 2 msk. sykurlaus apríkósusulta
  • Spirulina-duft á hnífsoddi

Hrærið vel saman skyri, sírópi, stevíu og vanilludropum og skiptið blöndunni jafnt í 4 skálar. Bætið svo jarðaberjasultunni í eina skál, bláberjasultu í aðra, apríkósusultunni í þá þriðju og hrærið hverja blöndu fyrir sig vel saman. Ef þið viljið ná fram ljósgræna litnum er sett örlítið af spirulina-dufti í síðustu skálina og hrært vel, annars má alveg sleppa því og hafa bara hvítt.

Teskeið af hverri blöndu sett til skiptis í íspinnaform þar til það er fullt og íspinnaprik sett í. Fryst í a.m.k. 6 klst.

Ég notaði íspinnamót úr sílikoni sem ég keypti í Allt í köku, þau eru frekar lítil en mér finnst það mikill kostur, oft eru íspinnamót svo stór og pinnarnir verða því voða stórir og sérstaklega börn geta ekki klárað, en þessi eru fullkomin að stærð.

mbl.is/Íris Pétursdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert