Ólafur Elíasson yfirtekur Marshall Restaurant ásamt systur sinni

Ólafur Elíasson og Victoria Elíasdóttir munu taka yfir Marshallhúsið í …
Ólafur Elíasson og Victoria Elíasdóttir munu taka yfir Marshallhúsið í þrjá mánuði. mbl.is/Facebook

Hinn 11. ágúst opna kokkurinn Victoría Elíasdóttir og bróðir hennar, listamaðurinn Ólafur Elíasson, tímabundið rými helgað matargerðarlist á Marshall Restaurant + Bar, Grandagarði 20. Veitingastaðurinn verður rekinn í ákveðinn tíma og mun bjóða upp á bæði hádegisverð og kvöldverð í anda Eldhúss Studio Olafur Eliasson (SOE) í Berlín.

Verkefnið mun færa Eldhús SOE frá Berlín til Reykjavíkur og þannig skapast rými til eldamennsku, hugsunar, til tilraunastarfsemi í matagerðarlist og möguleiki til samvinnu með litlum fyrirvara, í nánum tengslum við íslenskt umhverfi. Skapað verður einstakt andrúmsloft þar sem verk Ólafs Elíassonar munu prýða veitingastaðinn sem er á jarðhæð vinnustofu hans í Marshallhúsinu.

Victoria Elíasdóttir og teymið í Eldhúsi SOE munu bjóða gestum til sætis við langborð til að njóta heilsusamlegs matar og samræðu – ekki ósvipað og við hádegismatinn sem framreiddur er á degi hverjum handa teymi hundrað karla og kvenna sem starfa í stúdíóinu í Berlín.

Victoria tekur við þessu verkefni eftir að hafa starfað við góðan orðstír sem yfirkokkur á hinum rómaða veitingastað Dóttir í Berlín. Hún mun ásamt SOE-eldhústeyminu útbúa sérstakan matseðil sem sameinar hráefni úr heimabyggð og uppskriftir sem notið hafa vinsælda hjá teyminu í Berlín. Eldhús SOE í Berlín framreiðir að jafnaði grænmetismáltíðir úr lífrænt ræktuðu hráefni, en í Marshallhúsinu verður boðið upp á ferskt sjávarfang, enda er veitingastaðurinn einkar vel staðsettur til þess þar sem hann situr á hafnarbakkanum. Veitingastaðurinn mun bjóða upp á ákveðna máltíð í hádeginu og matseðil að kvöldi til.

Á tilteknum kvöldum verður gestum boðið að dvelja áfram eftir kvöldmat og taka þátt í viðburðum skipulögðum af Stúdíói Ólafs Elíassonar í samvinnu við i8 gallerí, Listaháskóli Íslands, Mengi og aðra heimamenn. Þetta verða viðburðir á borð við smátónleika, ljóðalestur, flutning á raftónlist, jazz eða söng. Einnig verða í boði gjörningar, spjall við listamenn, tónskáld, heimspekinga, félagsfræðinga og matreiðslumenn, auk þess sem skipulagðir verða viðburðir sérstaklega ætlaðir börnum.

Marshall Restaurant + Bar:

Opið: þriðjudag – sunnudag frá 11:30

Grandagarður 20, 101 Reykjavík
Strætó nr. 14 (Listabraut)

Borðapantanir
+354 519 7766 eða info@marshallrestaurant.is

www.olafureliasson.net/soe-kitchen-101
www.instagram.com/soe_kitchen/
www.marshallrestaurant.is

Eldhús Studio Olafur Eliasson
Eldhús SOE í Berlín er rekið áfram af teymi sem sér um matreiðslu á vinnustofu listamannsins. Þau útbúa lífrænan grænmetismat í hádeginu fjóra daga vikunnar fyrir alla þá eitt hundrað starfsmenn sem vinna þar að staðaldri, og eins fyrir þá gesti og samverkamenn sem gætu verið staddir þar hverju sinni. Þannig sér eldhúsið um að veita í senn holla næringu, en eins afþreyingu enda eru þessar sameiginlegu máltíðir félagslega límið í stúdíóinu. Eldhúsinu var upphaflega komið á fót af Asako Iwama og Lauren Maurer árið 2005 í gamla stúdíóinu á Invalidenstrasse. Lauren Maurer hefur komið að rekstri þess æ síðan en í hópinn hefur bæst fólk eins og Christine Bopp, Montse Torredà Martí og Nora Wulff. Eldhús SOE hefur vaxið að umfangi og metnaði, keyrt áfram af áhuga matreiðslumannanna sem hafa allir mjög ólíkan bakgrunn, sumir úr danslistum, leikhúsi, kvikmyndum og listum, en einnig úr heimi matagerðarlistar. Á árunum 2009 og 2014 voru mörg samstarfsverkefni á milli eldhússins og Institut für Raumexperimente (Rýmisrannsóknarstofnunin, raumexperimente.net) þar sem fram fóru ýmsar tilraunir með matvæli, og þau hafa haldið áfram því starfi að rannsaka eldunaraðferðir og framreiðslu. Árið 2016 byrjuðu þau með röð viðburða sem kallast Brögð úr stúdíóeldhúsinu, þar sem farið var yfir ýmis efni eins og gerjun og örverur, sem kynnt voru fyrir stúdíóteyminu meðan á hádegismat stóð. Eldhús SOE er í nánu sambandi við lífræna bóndabýlið Apfeltraum, sem er rétt fyrir utan Berlín. Úr eldhúsinu hefur líka verið haldið í rannsóknarferðir t.d. í gerjunartilraunastofu í Kaupmannahöfn og í le potager de la reine, sem er tilraunagarður sem falinn er á bak við Versalahöll.

Victoria Elíasdóttir
Kokkurinn Victoria Elíasdóttir kynntist matreiðslu snemma í gegnum föður sinn sem var líka matreiðslumaður. Að loknu námi hóf hún feril sinn með því að reka veitingastað á Suðurlandi sem opinn var yfir sumartímann. Á matseðlinum þar voru silungur og tómatar af næsta bæ sem hún framreiddi ofan í ferðamenn og forvitna bændur. Árið 2012 fór hún til Berkeley í Kaliforníu þar sem hún var ráðin til fjögurra mánaða á veitingahúsinu Chez Panisse. Sú reynsla varð til þess að hún vildi dýpka skilning sinn á eðli matreiðslu. Árið 2015 opnaði hún veitingahúsið Dóttir í Berlín, en matseðillinn þar er undir miklum áhrifum frá þeim mat sem hún komst í kynni við á bernskuheimilinu. Frá 2017 hefur Victoria einbeitt sér að frekari þróun eldhússins í stúdíói Ólafs Elíassonar, og hefur það verið henni vettvangur til að eiga í frekara samtali við aðgerðasinna í matarmálum, kokka og aðra til að fá innblástur og deila hugmyndum.

Ólafur Elíasson
Listamaðurinn Ólafur Elíasson er fæddur árið 1967 og vinnur hann í fjölda miðla, m.a. innsetningar, málverk, skúlptúr, ljósmyndir og kvikmyndir. Hann hefur frá 1997 haldið fjölda einkasýninga í helstu listasöfnum heims. Meðal verka Ólafs á opinberum vettvangi má nefna The New York City Waterfalls árið 2008, og Ice Watch sem sýnt var í Kaupmannahöfn árið 2014 og svo í París 2015. Stúdíó Ólafs var stofnsett árið 1995, og starfa nú við það um eitt hundrað manns, á meðal þeirra eru handverksmenn, arkítektar, skjalaverðir, rannsóknarfólk, kerfisstjórar og kokkar. Árið 2014 stofnuðu Ólafur og arkítektinn Sebastian Behmann Studio Other Spaces, fyrirtæki sem helgar sig samspili listar og arkitektúrs, með sérstaka áherslu á þverfaglegt samstarf við gerð tilraunakenndra mannvirkja og listaverka í almenningsrými. Árið 2012 stofnaði Ólafur ásamt verkfræðingnum Frederik Ottesen fyrirtækið Little Sun. Það verkefni nær um heim allan og sér um dreifingu ljóssins Little Sun sem gengur fyrir sólarorku og er einkum ætlað til notkunar á þeim svæðum í heiminum sem eru utan hefðbundinnar raforkudreifingar og ætlað til vitundarvakningar um nauðsyn þess að allir hafi aðgang að endurnýtanlegri orku.

Marshallhúsið
Marshallhúsið var reist árið 1948 sem fiskimjölsverksmiðja. Árið 2017 fór það í gegnum gagngerar endurbætur og breytingar í þá átt að gera húsið að listamiðstöð. Nú hýsir Marshallhúsið tvö listamannarekin rými, Kling & Bang og Nýlistasafnið, auk Stúdíó Ólafur Elíasson. Á jarðhæðinni er Marshall Restaurant + Bar, sem rekið er af Leifi Kolbeinssyni, og Victoria Elíasdóttir og eldhús SOE mun taka yfir í þrjá mánuði. Marshallhúsið er yst úti á Granda, hverfi í örum breytingum, sem lengi hefur verið þungamiðja hafnsækinnar starfsemi í Reykjavík. Frá Marshallhúsinu er víðsýnt og má sjá til gömlu hafnarinnar og Hörpu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert