„Einfaldar hugmyndir í vandaðri útfærslu“

Þeytt skyr ásamt Beurre noisette köku og sellerírótarkaramellu.
Þeytt skyr ásamt Beurre noisette köku og sellerírótarkaramellu. mbl.is/

Á Hellissandi er að finna fjölskyldurekna veitingastaðinn Viðvík, sem hélt nýlega upp á eins árs afmæli. „Maturinn sem við bjóðum upp á er í fínni kantinum og af blönduðum uppruna, þar á meðal skandinavískum, frönskum og asískum,“ segir Gils Þorri Sigurðsson, yfirmatreiðslumaður Viðvíkur, en hann er eigandi ásamt bróður sínum Magnúsi Darra Sigurðssyni og mökum þeirra, Anítu Rut Aðalbjargardóttur og Helgu Jóhannsdóttur.

„Við einblínum á ferskt og gott hráefni í bland við einfaldar hugmyndir í vandaðri útfærslu. Við fáum síðan frábært hráefni frá nærliggjandi stöðum, aðallega fisk, skelfisk og þess háttar.“

Spurður um staðsetninguna segist Gils telja hana fullkomna. „Ég ólst upp á svæðinu svo að fyrir mitt leyti er staðsetningin upp á tíu, og útsýnið líka. Kúnnahópurinn er skemmtileg blanda af heimamönnum og ferðafólki, en það er árstíðabundið hvor hópurinn er stærri.

Ferðamennirnir eru mjög margir á sumrin, en heimamenn eru líka duglegir að fá sér að borða, þá oftast um helgar,“ segir Gils sem deilir tveimur uppskriftum með lesendum.

Þeytt skyr ásamt Beurre noisette köku og sellerírótarkaramellu

Sítrónu „Beurre Noisette“ kaka

 • 190 g sykur
 • 115 g hveiti
 • 2 g salt
 • 2 eggjarauður
 • 105 gr eggjahvíta
 • 1 vanillustöng
 • 25 ml sítrónusafi
 • börkur af hálfri sítrónu
 • 160 ml „Beurre noisette“ (Setjið smjör í pott og bræðið yfir meðalháum hita. Hrærið reglulega í smjörinu þar til gullin froða myndast ofan á því. Látið malla þar til froðan verður fagurbrún.) 

110 gr af sykri, eggjarauður, sítrónubörkur, sítrónusafi og vanilla hrært saman þar til eggin eru orðin létt, þá er hveitið sigtað út í og svo smjörinu bætt við, hrært vel saman.

Eggjahvítan ásamt saltinu og rest af sykri þeytt þar til að stífur marengs myndast.

Marengsinum er þá bætt út í hina blönduna í þrem skrefum. Við mælum með því að nota sleikju í stað písks til þess að viðhalda sem mestu lofti í blöndunni svo að kakan verði léttari.

Smyrjið form með smjöri og hellið blöndunni í.

Bakað við 165 gráður í 25 mínútur (misjafnt eftir stærð formsins og þykkt kökunnar)

Líka hægt að prufa að notast við appelsínur og kardimommur í þessa uppskrift.

Sellerírótarkaramella

 • 1 sellerírót
 • 2 dl sykur
 • 1 l vatn
 • 400 ml rjómi

Sykurinn settur í pott og bráðinn þar til dökk karamella myndast.

Á meðan sykurinn bráðnar er gott að skera sellerírótina í grófa teninga. Þegar sykurinn er tilbúinn er vatninu bætt út í, mælt er með því að hita vatnið áður til þess að minnka myndun sykurkristalla.

Þegar sykurinn hefur leyst vel upp í vatninu má bæta sellerírótinni út í og sjóða vel saman, eða þar til að blandan hefur soðið niður um rúmlega helming.

Næst er sellerírótin sigtuð frá og blandan soðin niður enn fremur eða þar til að sýróp hefur myndast.

Næst er rjómanum bætt út í og blandan soðin saman þar til þykknar, gott er að hræra vel í blöndunni með písk.

Karamellan er þá látin kólna, þegar karamellan er orðin köld er gott að hræra hana upp.

Þeytt skyr

 • 200 g skyr (má vera hvaða bragð sem er, hér er notað vanilluskyr)
 • 250 ml rjómi
 • flórsykur eftir smekk
 • 2 tsk hunang (eða eftir smekk)
 • börkur af hálfri sítrónu
 • „brennt“ hvítt súkkulaði

Rjóminn settur í hrærivél og léttþeyttur

Skyrinu svo bætt út í ásamt, flórsykri, hunangi, sítrónuberki og fínmuldu brenndu hvítu súkkulaði. Þeytt áfram þar til stíft.

Annað meðlæti

 • frostþurrkuð hindber
 • „brennt“ hvítt súkkulaði
 • dill olía
 • fersk hindber eða jarðarber
Viðvík er lítill en notalegur veitingastaður sem rúmar 30-40 manns.
Viðvík er lítill en notalegur veitingastaður sem rúmar 30-40 manns. mbl.is/
mbl.is/
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »