Heitar umræður um versta veitingastaðinn

Kristinn Magnússon

Greinilegt er að menn hafa sterkar skoðanir á veitingastöðum landsins en nú er í gangi ansi áhugaverð umræða þar sem skipst er á skoðunum um veitingastaði og hvern beri að krýna „versta veitingastaðinn“.

Sitt sýnist hverjum og skiptast menn jafnframt á sögum. Þar er meðal annars sagt frá nöglinni sem var í pítsunni (reyndar fylgir mynd með) og rándýra humarpastanu sem reyndist innihalda litlar rækjur svo eitthvað sé nefnt.

Eitthvað er um að fyrrverandi starfsmenn láti fyrrverandi vinnustaði fá það óþvegið og í alla staði er spjallþráðurinn hinn áhugaverðasti.

DV hefur skrifað frétt um þráðinn en athugasemdirnar við fréttina eru líka afskaplega skemmtilegar en þar ganga ásakanir um frændhygli og annað manna á milli.

Hver versti veitingstaður landsins er skal ósagt látið en ljóst er að ansi margir hafa sterka skoðun á málinu.

Spjallþráðinn á Matartips! er hægt að nálgast HÉR.

Frétt DV um málið er hægt að nálgast HÉR.

mbl.is