Dásemdar ofnbakaðir þorskhnakkar frá GOTT

Þorskur á alltaf vel við.
Þorskur á alltaf vel við. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þessi dásemdarfiskréttur er akkúrrat það sem þarf til að byrja vikuna af krafti - en þó í hollustunni. Hér þarf nokkur handtök en fyrir þá sem vilja minnka flækjustigið er ekkert mál að einfalda uppskriftina. Þið hafið þetta eins og þið viljið en uppskriftin er algjört sælgæti enda kemur hann úr smiðju veitingastaðarins GOTT í Reykjavík. 

Ofnbakaður þorskhnakki

Fyrir 2

  • 400 gr þorskhnakkar
  • Skerið hnakkann í 200 gramma steikur og kryddið með salti.

Villisveppaskel

  • 250 gr smjör
  • 1 msk villisveppa-kraftur
  • 4 msk brauðraspur
  • 1 msk saxað dill

Setjið smjörið í hrærivél og þeytið þangað til það er alveg hvítt og loftmikið. Blandið brauðraspinum saman við ásamt kryddjurtum og villisveppakrafti og hrærið vel saman. Smyrjið smjörinu á smjörpappír (miðað við þykkt á 100 kr pening) og setjið í frysti þangað til það er orðið það hart að hægt er að skera það í passlega stærð ofan á fiskinn.

Setjið villisveppaskelina ofan á fiskinn þannig að hún hylji allt stykkið. Bakið í ofni við 180°C í 8 – 9 mínútur.

Gulrótarmauk

  • 200 gr gulrætur
  • 250 ml rjómi
  • 50 gr smjör
  • 1 msk sítrónusafi
  • salt eftir smekk

Skrælið og skerið gulræturnar í bita og setjið í pott með vatni svo það rétt hylji gulræturnar. Sjóðið þangað til þær eru mjúkar og setjið í blandara ásamt rjóma og smjöri þar til fínt mauk myndast. Smakkið til með salti og sítrónusafa.

Blómkál

  • ½ blómkálshaus
  • 1 msk matarolía

Fjarlægið mestu laufin af blómkálinu og skolið það vel með köldu vatni. Setjið hausinn í eldfast mót, hellið olíu yfir og kryddið með smá salti. Bakið í ofni við 190°C í 20 – 25 mínútur.

Saltpikkluð sinnepsfræ og fennel

  • 50 gr gul sinnepsfræ
  • 200 ml borðedik
  • 200 gr sykur
  • 200 ml vatn
  • 2 stykki fennel, smátt skorin

Setjið edik, vatn og sykur í pott og látið suðuna koma upp. Setjið sinnepsfræin í skál sem þolir hita og hellið sjóðandi vökvanum yfir og hyljið. Geymið vökva fyrir fennelið sem á einnig að pikklast yfir nótt.

Gott er að láta fræin vera við stofuhita yfir nótt og láta síðan í kæli. Sigtið síðan sinnepsfræin frá vökvanum og setjið í dillolíu.

Dillolía

  • 200 ml matarolía
  • 1 búnt dill

Setjið olíu og dill í blandara og blandið í 5 – 6 mínútur eða þar til olían hitnar vel. Sigtið síðan olíuna í gegn um klút eða stykki svo allt hratið fari úr.

Raðið þessu fallega saman á disk; gulrótarmaukinu, svo fiskinum og blómkálinu og fennel til hliðar. Stráið sinnepsfræjum yfir grænmetið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert