Rúbínsúkkulaðið rýkur út – víða uppselt

Eins og alþjóð veit kom Rúbínsúkkulaði Nóa Síríus á markað í takmörkuðu upplagi um síðustu helgi en biðin hefur verið löng. Miklar umræður hafa skapast um súkklaðið sem alla jafna er kallað fjórða súkkulaðið og er hrifning fólks mikil.

Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa Síríuss.
Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa Síríuss.

Að sögn Silju Mistar Sigurkarlsdóttur, markaðsstjóra Nóa Síríuss, er súkkulaðið víða orðið uppselt. „Það er að seljast upp á mörgum stöðum og lítið eftir hjá okkur á lager. Þetta rýkur út hjá okkur. Mörgum þykir Rúbínsúkkulaðið dýrt en það er rúmlega tvöfalt dýrara hjá framleiðanda í innkaupum á bauninni. Vonandi í framtíðinni, þegar framboðið er orðið meira af hráefninu sjálfu, getum við boðið það á sambærilegu verði og annað súkkulaði,“ segir Silja en Rúbín súkkulaðið er öllu dýrara en fólk á að venjast enda sannkölluð fágætisvara. 

„En fyrst og fremst finnst fólki það gott á bragðið og koma á óvart. Það sem er skemmtilegt við Rúbín er að það er 47,3% kakóþurrefni sem er mjög hátt hlutfall, til samanburðar er suðusúkkulaðið okkar 45%. Bragðið er alveg einstakt og ekki skemmir fyrir hvað það er fallega rúbínrautt frá náttúrunnar hendi. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt ferli og algjör forréttindi að fá að taka þátt í verkefni af þessari stærðargráðu,“ segir Silja og er að vonum ánægð með árangurinn.

mbl.is