Er mygla í þvottavélinni þinni?

Góð þvottavél er gulli betri.
Góð þvottavél er gulli betri.

Það er algengara en þú heldur að það myndist sveppur í þvottavélum. Slíkt er arfaslæmt í alla staði en blessunarlega er hægt að losna við sveppinn ef hann er meðhöndlaður rétt.

Hvernig veit ég að það er mygla í þvottavélinni?

Yfirleitt leynir hún sé ekki. Það kemur vond lykt úr þvottinum og sveppurinn sést með berum augum, til dæmis í sápuhólfinu. Slímið er gulleitt í byrjun en verður svo dökkgrátt.

Hvernig losna ég við mygluna?

  1. Byrjaðu á að þrífa hólfið vel og rækilega. Best er að taka það í sundur ef kostur er.
  2. Síðan skal nota óblandað Rodalon og skrúbba hólfið vel með því. Gott er að nota pela- eða flöskubursta til að komast sem lengst. Notið gúmmíhanska.
  3. Alla vélina skal þrífa með þessum hætti.
  4. Takið síur og sigti með sama hætti og passið að þrífa gúmmíhringinn og glerið í hurðinni vel.
  5. Síðan skal setja Rodalon í sápuhólfið og stilla á 40 gráðu prógramm. Látið vélina taka vel af vatni inn á sig og slökkvið þá á vélinni og látið standa í henni yfir nótt. Kveikið aftur á henni daginn eftir og látið hana klára prógrammið. Ekki hafa neitt annað í vélinni á meðan.

Til að koma í veg fyrir myglu er gott að þvo reglulega á hæstu stillingu því sveppamyndunin lifir ekki af slíkan hita. Athugið samt að sápuhólfið er hér undanskilið þannig að myglan getur tekið sig upp þar aftur og smitað áfram. Gott er að þurrka vélina vel eftir notkun eða skilja eftir rifu á sápuhólfinu og hurðina opna þannig að vélin nái að þorna vel milli þvotta.

Til að losna við sveppamyndun skal minnka notkun þvottaefna og mýkingarefna. Nema að þvotturinn sé þeim mun óhreinni þarf ekki reiðarinnar býsn af þvottaefnum. Prófaðu að nota minni skammta - það skilar jafn hreinum þvotti og fer betur með umhverfið. 

mbl.is