Borðar bjúgu í leyni

Edda Hermannsdóttir dreymir um að eignast vöfflujárn fyrir belgískar vöfflur.
Edda Hermannsdóttir dreymir um að eignast vöfflujárn fyrir belgískar vöfflur. Árni Sæberg

Edda Hermannsdóttir þykir með skemmtilegri konum á landinu og vill svo skemmtilega til að hún er mikill matgæðingur og elskar að prófa sig áfram í eldhúsinu þó hún segist baka meira en elda. Hún er sérlega hrifin af ítölskum mat og hér deilir hún með sér sínum myrkustu matarjátningum en hvern hefði grunað að gourmet-grallarinn Edda elskaði fátt heitar en gamaldags bjúgu?

Hvernig byrjar þú daginn?

„Ég þarf að hafa mig alla við að fá mér morgunmat og það gleymist reglulega. Ég reyni þó að byrja daginn á grænum þeytingi með vel af spínati. Hugsa samt allan tímann um hvað mig langar frekar í ristað brauð með vel af smjöri en það bíður fram að helgi.“

Uppáhalds maturinn þinn?

„Ítalskur matur er í miklu uppáhaldi hjá mér og gott nautakjöt. Kjötsúpan er líka mjög vinsæl hjá mér og krökkunum enda nauðsynlegur kraftur í henni yfir vetrarmánuðina.“

Uppáhalds veitingahús?

„Ætli ég fari nú ekki oftast á Snaps en síðan er Austur Indíafjelagið og ROK líka í miklu uppáhaldi. Maturinn skiptir auðvitað miklu máli en ekki síður stemningin, þá bragðast maturinn betur.“

Eldarðu mikið?

„Já, ég elda mikið en ég baka líklegast ennþá meira. Það er mikil slökun fólgin í því að dunda sér í eldhúsinu með kerti og góða tónlist. Mér finnst skemmtilegt að prófa mig áfram í ítalskri matargerð en svo er klassískur sunnudagsmatur eins lambalærið með góðum kartöflum góð leið að hjörtum heimilisfólksins. Ég baka svo oft bananabrauð á kvöldin sem er mjög vinsælt nesti í skólann.“

Stærsta eldhúsklúðrið?

„Þar sem ég vil helst aldrei alveg fylgja uppskriftum og vil „dassa“ allt þá hafa bökunarævintýrin alveg verið nokkur. Þau verstu hafa átt sér stað daginn fyrir barnaafmælin. En þá er bara minna sofið og börnin alsæl. Ef þau bara vissu.“

Ef þú værir að fara á eyðieyju...

„Myndi ég taka nóg af súrdeigsbrauði, epli og helst smá hnetusmjör. Síðan auðvitað nóg af suðusúkkulaði.“

Hvað leggur þú áherslu á í mataræðinu?

„Ég verð mjög fljótt leið á hlutunum og legg því mikla áherslu á að hafa fjölbreytni. Ég get t.d. ekki borðað sama morgunmatinn tvo daga í röð. Ég reyni að hafa salat með öllum mat og á alltaf nóg af tómötum og ávöxtum sem er vinsælt snakk á heimilinu. Þá erum við með betri samvisku þegar við svindlum.“

Stærsta freistingin?

„Súkkulaðið er mesta freistingin og það er alltaf til suðusúkkulaði í ísskápnum með ískaldri mjólk. Ég á sjálf minningar sem krakki, að fá suðusúkkulaðibita einstaka sinnum á kvöldin með mjólk og er handviss um að maður sofi enn betur í kjölfarið.“

Hvað ertu að spá í að bjóða upp á í næsta matarboði?

„Ég er nýkomin frá Ítalíu og tók með mér ýmislegt góðgæti og meðal annars trufflu-krem en mér finnst trufflur agalega góðar. Ég ætla því að láta nautalund liggja aðeins í trufflukremi sem ég blanda við góða ólífuolíu . Með þessu risti ég í kartöflur, baka rauðlauk og gulrætur með smá hunangi og smjörsteiki sveppi. Með þessu verður salat með tómötum og mozzarella osti. Ég er strax orðin svöng við tilhugsunina.“

Fyrirmynd í eldhúsinu?

„Mamma er fyrirmynd og það var alltaf best að sitja í eldhúsinu þegar hún var að bardúsa eða finna skúffukökulyktina um allt hús. Síðan er ekki amalegt að eiga eldhússnillinginn hana Evu Laufeyju sem systur og ég læri helling af henni. Hún gerir allt svo einfalt og þægilegt og við erum duglegar að ræða mat og kökur þegar við hittumst.“

Hefur þú einhverja sérkennilega matardynti?

„Það er varla hægt að nefna það í svona hollustublaði en ég elda alltaf einu sinni á ári bjúgu með kartöflum og uppstúf. Ég bíð spennt eftir þessum degi í marga mánuði en þetta þarf að gerast í mesta myrkri yfir vetrartímann. Mér hefur ekki fundist þetta vera nægilega viðurkenndur matur svo ég tek sprett með bjúgun í fanginu út úr búðinni.“

Er eitthvað sem þig dreymir um að „mastera“ í eldhúsinu?

„Mig langar að verða betri að búa til ítalskan mat, búa til mitt eigið pasta og leika mér með ferskar kryddtegundir og osta með. Ég ímynda mér svo bara að Laugardalurinn sér fallegt ítalskt vínhérað og þá er þetta komið.“

Uppáhalds eldhúsáhald?

„Ég nota KitchenAid vélina mína líklegast mest af öllu en hún er fallega rauð á litinn og ég fékk hana í gjöf frá foreldrum mínum þegar ég var í menntaskóla en það lýsir manni kannski ágætlega að þegar ég útskrifaðist átti ég hrærivél og sparistellið mitt frá Margréti Jóns sem ég hugsa um eins og eitt af börnunum mínum.“

Hvað dreymir þig um að eignast í eldhúsið?

„Ég er meira að vinna í einföldunarverkefni í eldhúsinu og fækka dóti. Hinsvegar langar mig að eiga vöfflujárn fyrir belgískar vöfflur svo ég geti aukið fjölbreytnina í vöfflubakstrinum. Vöfflubakstur er galdurinn að því að gera heimilið að félagsheimili.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert