„Meðan við borðum 80% holla fæðu þá er í lagi að leyfa sér aðeins inn á milli“

Konráð Valur Gíslason einkaþjálfari.
Konráð Valur Gíslason einkaþjálfari. mbl.is/Mummi Lú

Konráð Valur Gíslason er einn reyndasti og vinsælasti einkaþjálfari landsins (og þótt víðar væri leitað). Hann hefur sérhæft sig í þjálfun fitness-fólks og veit meira en flestir hvernig best er að koma sér í form og hvaða aðferðir virka. Hann er einnig óþrjótandi viskubrunnur og lumar á ógrynni góðra ráða um hvernig best sé að byrja, hvað skiptir mestu máli í mataræðinu og hvaða mistök það eru sem fólk gerir og geta verið dýrkeypt.

„Fyrstu skrefin eru í raun að ákveða hvers konar líkamsrækt skal stunda. Hún þarf að vera skemmtileg, hún þarf að vera fjölbreytt og svo þarf hún auðvitað að skila árangri. Ef þú velur að kaupa þér kort í líkamsræktarstöð eða bara byrjar að nota kortið sem þú ert búinn að vera að borga af síðan um aldamótin, þá mæli ég alltaf með því að fólk leiti sér aðstoðar hjá þjálfara. Flestar stöðvar bjóða fólki frían tíma hjá leiðbeinanda og ef fólk vill fara enn lengra með þetta þá er alltaf hægt að ráða sér einkaþjálfara. En það er ekki nóg að kaupa sér bara kort í ræktina, það þarf líka að mæta.“
Ekki fara of geyst af stað

„Varast skal að byrja of geyst. Allt of margir ætla að sigra heiminn fyrsta mánuðinn en munum að þetta er ekki átak sem á sér endi. Við þurfum að horfa á þetta sem lífsstíl sem vonandi mun vara alla ævi. Maraþon, ekki spretthlaup, og í upphafi skal endinn skoða. Allt of margir stunda líkamsrækt án þess að vita alveg hvert þeir eru að stefna og hvað þeir vilja bæta og fyrir vikið mæta þeir svo eða svo oft í viku og gera bara það sem þeir eru í stuði fyrir þann daginn og enn fleiri enda á því að fara bara á brennslutækin og hanga þar, að því virðist, eingöngu til að drepa tímann. Setjum okkur því markmið. Markmið geta verið margvísleg. Ef þú vilt grenna þig settu þá niður á blað hvað þú vilt léttast mikið á viku, mánuði, og þremur mánuðum. Ef þú vilt styrkja þig taktu þá styrktarpróf í byrjun og svo reglulega eftir það. Nú ef þú vilt auka hlaupaþolið fáðu þá hlaupaplan hjá þjálfara og stundaðu styrktarþjálfun meðfram því.“

„Þegar markmiðin eru ljós þá skal haga æfingunum í samræmi við þau það er ef þú vilt auka hlaupaþolið þá þarftu að hlaupa, ekki fara bara á stigvélina og halda að þú bætir mikið hlaupaþolið þar og ef þú vilt verða sterkari í upphífingum, æfðu þá upphífingar. Ef þú ert óviss um hver séu raunhæf markmið þá getur þjálfari hjálpað þér með það. Þegar þú ert byrjaður að venja komur þínar í ræktina og þú finnur að þetta er ekki lengur kvöð heldur eitthvað sem þú hefur gaman af og finnur að gerir þér gott þá má fara að skoða mataræðið. Það skiptir mestu máli hvað þú borðar á milli áramóta og jóla en ekki það sem þú borðar á milli jóla og áramóta.“

„Staðfesta og reglusemi skiptir mestu máli í mataræði. Ég ætla ekki að fara að kryfja nýjustu trendin í mataræðinu vegna þess að það er bara til þess að flækja málin fyrir ræktarnýliðanum. Flestir vita hvað er hollt og hvað ekki. Forðumst sælgæti og sykur, sleppum djúpsteiktum mat, borðum prótín ríka fæðu, flókin kolvetni og góða fitu. Á meðan við borðum 80% holla fæðu þá er í lagi að leyfa sér aðeins inn á milli.“

„Munum að við ætlum að vera í þessu til frambúðar og það er ekki raunhæft að lifa eins og munkur og neyta okkur um allt er telst óhollt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert