Sous vide steik sem er löðrandi í ostum

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Það er formlega skítaveður framundan um næstum allt land á næstu dögum og þá má maður gera vel við sig í mat og drykk. Það má líka færa sannfærandi rök fyrir því að þetta sé ketó máltíð og þá geta allir verið glaðir. 

Hér höfum við sous vide svínalundir sem að Ragnar Freyr Ingvarsson setti saman en hann er ákaflega mikill ostamaður og má segja að uppskriftin sé löðrandi í ostum. 

Akkúrrat það sem við þurfum...

Heimasíðu Ragnars - Læknirinn í eldhúsinu - er hægt að nálgast HÉR.

Seiðandi svínalundir sous vide með gljáðum perum, bökuðum osti og splunkunýjum íslenskum kartöflum

Hráefnalisti fyrir 10 manns
2 kg svínalundir
salt og pipar
jómfrúarolía
10 perur
50 g smjör
2 msk. hunang
handfylli valhnetur
2 msk. balsamik edik
1 gullostur
1 stóri dímon
2 hvítlauksrif
2 msk. hvítvín
2 msk. hvítlaukolía
salt og pipar
1 kg nýjar íslenskar kartöflur
handfylli pæklaðar gúrkur (gherkins) 
Aðferð:
Ég byrjaði á því að setja Vouto sous vide tækið í gang. Það er gaman frá því að segja að sala þessa tækis gekk vel fyrir jólin í fyrra og í samvinnu við Margt smátt munum við koma með fleiri vörur á markað fyrir jólin sem verða í boði sem jólagjafir til fyrirtækja. Við ætlum að sjálfsögðu að halda áfram að bjóða upp á þetta tæki, en verðum líka með lofttæmingartæki, svuntu, hníf og skurðarbretti undir mínu merki og Vuoto. Segi meira frá því þegar nær dregur. 
Ég stillti tækið á 62 gráður og þannig fást svínalundirnar lungamjúkar og góðar. Ég pipraði þær áður en ég setti þær í poka, lofttæmdi og setti svo í vatnsbaðið í 90 mínútur. 
Ég notaði uppáhaldsostana mína í þessa uppskrift, Stóra Dímon sem er ljúffengur blámygluostur ...

 ... og til að hafa smá jafnvægi þá notaði ég líka einn gullost.

Ég lagði þá í eldfast mót sem ég hafði penslað með hvítlauksolíu. Næst var að gata þá vandlega með gaffli. 
Því næst hellti ég matskeið af hvítvíni yfir hvorn ost, tyllti svo hvítlauksrifi ofan á. Svo var auðvitað saltað og piprað. Setti svo álpappír ofan á ostinn og bakaði við 160 gráður í forhituðum ofni í 40 mínútur. 
Osturinn bráðnaði saman í dásamlega ilmandi og seiðandi ostasósu.

Þá var að undirbúa perurnar. Ég bræddi fyrst smjörið og leysti svo hunangið upp í heitu smjörinu. Bætti svo balsamik edikinu saman við og lét krauma við lágan hita í nokkrar mínútur. 

Þá bætti ég við handfylli af gróflega söxuðum valhnetum og lét krauma í eina til tvær mínútur í viðbót. 

Næst skref var að flysja, helminga og kjarnhreinsa fimm perur og leggja í eldfast mót. Þær voru svo bakaðar í 35 mínútur í 160 gráða heitum ofni. 

Svínalundirnar voru svo teknar upp úr vatnsbaðinu, penslaðar með jómfrúarolíu, saltaðar og pipraðar og svo rétt brúnaðar að utan á blússheitu grilli. 
Svo var bara að sneiða lundirnar niður ofan í mannskapinn.  
Perurnar lagði ég á beð af fersku íslensku salati. 

Svo var bara að njóta. Það er erfitt að lýsa því hversu ljúffengar nýjar íslenskar kartöflur eru þegar þeim er velt upp úr bökuðum osti. Hreint út sagt stórkostlegt.

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert