Fagurkerinn og eldhúsgyðjan Maria

María Gomez er mikill fagurkeri og heldur úti hinu bráðskemmtilega …
María Gomez er mikill fagurkeri og heldur úti hinu bráðskemmtilega bloggi paz.is mbl.is/Kristinn Magnússon

María Gomez heldur úti lífstíls- og matarblogginu Paz.is þar sem kennir ýmissa grasa. María er með smekklegri konum á landinu og tekur ótrúlega fallegar myndir af því sem hún er að fást við hverju sinni. Að auki er hún afskaplega úrræðagóð og hugvitssöm og því virkilega áhugavert að fylgjast með því sem hún er að gera. Við lögðum fyrir hana nokkrar spurningar og að auki bauð hún í hollustuveislu sem enginn verður svikinn af.

Hvernig byrjar þú daginn?

„Við krakkarnir vöknum í rólegheitum og gerum okkur klár fyrir daginn. Svo skutla ég þeim á leikskólann og kem heim og fæ mér þá fyrst morgunmat. Smoothie skál eða Bullet proof kaffi og prótein bananapönnsur hafa verið í uppáhaldi á morgnana hjá mér undanfarið.“

Uppáhalds maturinn þinn?

„Það er svo ótalmargt sem mér þykir gott, en ég held að það sé óhætt að segja að spænski maturinn sem Tita Paz (frænka Paz) eldar sé í allra mesta uppáhaldi, allt frá hvítlaukskjúlla til grillaðra paprikna og endalaust þar á milli.“

Uppáhalds veitingahús?

„Bryggjan Brugghús.“

Eldarðu mikið?

„Já, oftast geri ég það en það koma líka tímar þegar ég bara nenni því hreinlega ekki og þá er ég með skyr og flatkökur eða eitthvert annað léttmeti í kvöldmatinn. Yfirleitt finnst mér gaman að stússast í eldhúsinu og prófa nýja hluti.

Mér finnst skemmtilegast að elda mat sem er mjög einfaldur í framkvæmd en bragðast jafnframt vel. Það þarf nefnilega ekki alltaf að standa klukkutímunum saman í eldhúsinu til að töfra fram góðan mat, en ég hef oftast tileinkað mér uppskriftir sem þarf að hafa lítið fyrir en bragðast samt sem áður þrusu vel.“

Stærsta eldhúsklúðrið?

„Úff, þau eru alveg nokkur en ætli það hafi ekki verið brennda jólasósan hér um árið, sem brann svo rækilega við að það þurfti að henda pottinum.“

Hvað ertu að spá í að bjóða upp á í næsta matarboði?

„Fritada de pollo eða spænskur kjúklingapottréttur klikkar aldrei... sérstaklega ef hann er borinn fram með heimabökuðu snittubrauði, heimagerðum hvítluksrjómaosti og grilluðum paprikum á spænskan máta, það slær alltaf í gegn.“

Hefur þú einhverja sérkennilega matardynti?

„Set alltaf klaka í mjólkina mína ef ég drekk hana með súkkulaðiköku eða út á morgunkornið, það er bara best en kemur mörgum skringilega fyrir sjónir. Búin að smita manninn minn og elstu dótturina af því líka.“

Uppáhalds eldhúsáhald?

„Ninja blandarinn minn, sem er sá allra besti sem ég hef átt, og hef ég átt þá marga og frá mjög góðum merkjum en þessi er bara klárlega sá besti.“

Hvað dreymir þig um að eignast í eldhúsið?

„Le Creuset steypujárnspott.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »