Kjúklingasalatið sem Ebba elskar

Gott kjúklingasalat stendur ætíð fyrir sínu og telst hin fullkomna byrjun á vikunni. Sjálf segir Ebba Guðný Guðmundsdóttir, konan á bak við uppskriftina, að þetta salat sé svo gott að hún borði það jafnvel í morgunmat. 

Og af hverju skyldum við ekki borða kjúklingasalat í morgunmat? Fyrirtaksmatur sem fer vel í maga. 

Kjúklingasalat – uppáhaldssalat Ebbu

2-3 kjúklingabringur (allt eftir því hvað margir borða og hvort maður vill eiga afgang). Ég kaupi oftast frosnar frá Litlu gulu hænunni. Ég læt þær þiðna yfir nótt inni í ísskáp.

Gott íslenskt salat (mér finnst klettasalat best).

Þroskaður mangó (val). Einnig má nota trönuber eða annað til að sæta aðeins. Mér finnst það gott en ekki öllum. Þið ráðið.

Hampfræ til að dreifa yfir salatið. Það er hollt og afar bragðgott. Gott prótein og góð fita í góðum hlutföllum fyrir líkamann.

Kryddið á kjúklinginn: Eðal-kjúklingakrydd, Eðalkrydd og Taza masala. Ég set mikið af öllu þessu kryddi, það er ferlega gott. Ekkert gaman að borða bragðlausan mat.

Ég sker kjúklinginn í bita og steiki hann upp úr gæðaólífuolíu á lágum hita (ég nota um 6 þegar hæst hjá mér er 9). Það er hollast að nota ekki mikinn hita þegar maður steikir. Svo krydda ég afar ríkulega.

Ég geymi svo kjúklingabitana eldaða með kryddinu í glerkrukku með loki inni í ísskáp. Þá getur hver sem er fengið sér kjúkling í salat eða vefjur eða annað, hvort sem það er í morgunmat, hádegismat eða kvöldmat.

Sósan (aðalmálið sko!)

Það er svolítið síðan ég byrjaði að breiða út fagnaðarerindið um þessa sósu. Mér finnst hún svo svakalega góð og öllum á heimilinu og öllum sem hana smakka.

Þessa sósu hræri ég saman í glerkrukku og geymi inni í ísskáp til að sulla yfir salöt. Ég borða mest salöt á morgnana og þetta er uppáhaldssósan út á salatið mitt. Hvað ég hef annað en íslenskt salat og sósu í salatinu er misjafnt. Ímyndunaraflið er það sem ræður för og auðvitað bragðlaukar þess sem ætlar að borða salatið.

1 msk dökkt möndlusmjör frá Monki

1 msk dökkt tahini frá Monki

(mér finnst best frá Monki þess vegna tek ég það sérstaklega fram).

Kaldpressuð gæðaólífuolía til að hræra þetta saman í meðalþykka sósu.

Himalajasalt eða sjávarsalt eftir smekk, ég set alveg slatta, þegar ég hugsa málið.

Öllu hrært saman í krukku (má búa til stærri skammt og skammtastærðir alls ekki heilagar) og geymd inni í ísskáp með loki.

mbl.is