Reykjavik Kitchen opnar á Rauðarárstíg

Lilja Margrét (t.v.) og Fjóla Guðmundsdóttir á nýja staðnum.
Lilja Margrét (t.v.) og Fjóla Guðmundsdóttir á nýja staðnum. Árni Sæberg

Nýtt veitingahús, Reykjavík Kitchen, hefur verið opnað á Rauðarárstíg 8. Staðurinn er að hluta til í eigu sömu fjölskyldu og rekur veitingastaðinn Old Iceland Restaurant á Laugavegi 72.

Eigendur Reykjavík Kitchen eru systkinin Páll Þórir Rúnarsson og Ólafur Þór og Fjóla Guðmundsbörn og makar þeirra. Lilja Margrét Bergmann, eiginkona Ólafs, mun að mestu leyti reka staðinn. Nýi staðurinn hefur verið í undirbúningi síðan í maí og hefur húsnæðið allt verið tekið í gegn og innréttað á nýjan hátt. „Við höfum lagt sál og hjarta í þennan stað og erum bjartsýn á að þetta muni ganga vel,“ segir Lilja.

Íslensk matargerð

Hún segir nafnið á nýja staðnum, Reykjavík Kitchen, tengjast áherslu á íslenska matargerð.

„Við völdum þetta nafn því við ætlum að vera með hefðbundinn íslenskan mat. Við notum íslenskt hráefni og verðum með ferskan fisk á hverjum degi. Vildum höfða jafnt til Íslendinga sem og ferðamanna,“ segir Lilja Margrét.

Spurð um staðarvalið bendir hún á að fjöldi ferðamanna eigi leið um svæðið og þá séu margir gististaðir í nágrenninu. Með Hlemmi Mathöll og nýjum hótelum, meðal annars CenterHotel Miðgarði, hafi aðdráttarafl svæðisins aukist. Rauðarárstígur sé að styrkja sig í sessi sem veitingagata. „Við erum bjartsýn. Við erum með gott hráefni og góðan mat og höfum trú á að margir komi til okkar. Við erum nýbúin að taka úr lás en höfum ekki auglýst mikið. Það er nóg að gera á Old Iceland og erum við því bjartsýn fyrir næstu ár,“ segir Lilja Margrét um horfurnar í rekstrinum. Reykjavík Kitchen rúmar ríflega 40 manns í sæti. Forréttir kosta 1.590-2.190 kr. Aðalréttir kosta 2.990-4.990 kr. en í hádeginu, frá kl. 11.30-15:00, er boðið upp á fisk dagsins á 1.990 kr. og snitzel á 1.890 kr.

Staðurinn er steinsnar frá Hlemmi.
Staðurinn er steinsnar frá Hlemmi. Árni Sæberg
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »