Salatið sem varð aðalstjarnan í matarboðinu

Gretu Salome var bent á þessa uppskrift að svokölluðu Jerúsalemsalati. Svo hrifin var Greta af salatinu að þetta er formlega orðið uppáhaldssalatið hennar. 

„Ég gerði salatið fyrst eftir upprunalegu uppskriftinni og algjörlega elskaði það. Ég trúði því ekki að salat gæti verið svona gott. Ég fór svo að gera þessa uppskrift nokkrum dögum seinna og vildi aðlaga hana því sem ég á yfirleitt í eldhússkápunum og gera hana örlítið hollari og er það uppskriftin hér fyrir neðan. Upprunalegu uppskriftina má þó nálgast á vinotek.is.“

Hún segist reyndar sleppa alveg tortillavefjunni og nota sáralítið af döðlum, en þessi útgáfa hér að neðan sé mjög holl og nokkuð sem hún lofar að eigi eftir að slá í gegn.

„Ég veit að salat getur hljómað mjög óspennandi en treystið mér; þessi uppskrift er svo hrikalega góð að í síðasta matarboði þar sem ég grillaði alls konar geggjaðan mat var það þetta salat sem var aðalstjarnan og allir vinir mínir báðu um uppskriftina á eftir.“

Jerúsalemsalat

  • 1 rauðlaukur skorinn í strimla
  • 70 g saxaðar döðlur
  • 1 msk. eplaedik

Setjið allt saman í skál og látið marinerast í um 20 mín.

  • 1 heilhveititortillavefja, rifin niður í litla bita
  • 30 g möndlur
  • 30 g pekanhnetur
  • 1 væn tsk. sítrónupipar
  • ½ tsk. chiliflögur
  • klípa af sjávarsalti
  • 2 msk. ólífuolía

Grófsaxið möndlur og pekanhnetur. Hitið olíu á pönnu og veltið möndlum og tortillabitum um á pönnunni í nokkrar mínútur þar til allt fer að taka á sig brúnan lit. U.þ.b. 5 mínútur. Kryddið þá með salti, sítrónupipar og chili.

  • spínat (helst baby spinach)
  • safi úr ½ sítrónu
  • ólífuolía
  • salt

Blandið spínatinu og döðlu/laukblöndunni saman við tortillabitana og hneturnar. Bætið um msk. eða svo af ólífuolíu saman við ásamt sítrónusafanum. Smakkið til með salti – ef þarf. Berið strax fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert