Besta pítsu-trixið í bransanum

Undirrituð er ekki svo heppin að eiga eldofn (ekki enn) …
Undirrituð er ekki svo heppin að eiga eldofn (ekki enn) en bakar þess í stað í hefðbundnum ofni á 220 gráðum með blæstri. Þessi mynd er hins vegar tekin á Eldofninum í Grímsbæ svo þess sé getið. mbl.is/ÞS

Föstudagspítsan er heilög í huga margra og sjálf er ég þar engin undantekning. Á pítsukvöldunum ræð ég ríkjum í eldhúsinu og nýti mér það vald óspart. Pítsurnar mínar þykja með þeim betri í bransanum og oftar en ekki er slegist um að fá að koma í mat.

En hvert er leyndarmálið? spyrja margir og sjálfsagt munu einhverjir bókstafstrúarmenn núna taka æðiskast af hneykslan en það sem ég geri er einfalt.

Ég kaupi tilbúið deig (já já já  ég veit að það er svindl en þessa aðferð má líka nota á heimagert deig) og flet það út helmingi stærra en það ætti að vera. Það þýðir í raun að ég hef það eins þunnt og ég mögulega get.

Svo baka ég það ... já krakkar mínir. Nú rugla ég alveg í ykkur. Ég baka það fyrst og tek það svo út og set þá áleggið á.

Baka svo herlegheitin aftur.

Útkoman ... alveg hreint stórkostleg og ég hvet ykkur til að prófa þessa aðferð. Hún er að minnsta kosti heilög í mínum huga enda er ég hrifnari af þunnum botnum en þykkum.

Munið bara að gata deigið vel áður en það er bakað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert