Gaf vinum sínum ofursnjalla afmælisgjöf

Sædís Kolbrún Steinsdóttir.
Sædís Kolbrún Steinsdóttir. mbl.is/aðsend mynd
Sumir vinir eru hreinlega betri en aðrir  að minnsta kosti þegar kemur að afmælisgjöfum. Sædís Kolbrún Steinsdóttir er nokkuð örugglega í þeim flokki eftir að hún ákvað að fagna eigin afmæli með því að gefa vinum sínum frábæra gjöf. „Ég hef verið að leggja mig mikið fram seinustu ár við að minnka kaup á öllu sem kemur í einnota plastumbúðum og einnig hef ég verið að endurvinna allt sem hægt er; plast, pappír, málma og gler og matarafganga gef ég hænunum mínum, segir Sædís Kolbrún Steinsdóttir um tilefni þess að hún ákvað að gefa vinum sínum afar sniðuga taupoka. „Þetta hefur haft það í för með sér að ruslatunnan er nánast tóm og þörf fyrir plastruslapoka á mínu heimili er orðin lítil sem engin. Grænmeti og ávextir eru vörur sem eru mikið seldar í plastumbúðum en er einnig hægt að kaupa án plasts velji maður að sleppa litlu glæru plastpokunum sem eru algjörlega óþarfir.   Mig langaði því að kaupa mér góðan niðurhólfaðan taupoka sem myndi henta vel fyrir grænmeti og þar sem ég átti afmæli á þeim tíma sem ég pantaði pokann fannst mér tilvalið að kaupa 20 stykki handa sjálfri mér í afmælisgjöf en gefa þá áfram til fjölskyldu og vina í þeirri von að viðkomandi myndi sleppa plastpokunum næst þegar farið yrði í búðina.“  

Hitti indverskan frumkvöðul í Flatey

„Ég var stödd í Flatey á Breiðafirði í sumar þar sem ég kynntist indverskri fjölskyldu og komst að þvi að yfirvöld í Mumbai og öðrum borgum á Indlandi hafa nýverið bannað alla notkun plastpoka og eru brotlegir sektaðir um 40 þúsund krónur. Eiginkonan hafði því brugðist við með því að framleiða og selja niðurhólfaða taupoka sem hentuðu vel fyrir matvörumarkaðinn. Þetta var pokinn sem ég hafði leitað að og pantaði ég því hjá henni 20 stykki.“
  Sædís segir að viðbrögðin hafi verið algjörlega frábær. „Það stóð nú ekki til að gera neitt úr þessu en þegar ég sá enn einn póstinn á Facebook með ljósmyndum af fuglum og fiskum föstum í plastrusli sem við mannfólkið höfum skilið eftir fannst mér það kjörið tækifæri til þess að deila póstinum til umhugsunar og segja þá jafnframt frá því að ég væri að gefa þessa taupoka þeim sem gætu lofað mér að nota þá og minnka plastpokanotkun. Þeir taupokar sem ég hafði að gefa ruku út á klukkutíma.“
Pokarnir eru með hólfum sem kemur sér afskaplega vel.
Pokarnir eru með hólfum sem kemur sér afskaplega vel. mbl.is/aðsend mynd
mbl.is