Nýja sashi ribeye-steikin seldist upp

Sashi rib-eye steikin.
Sashi rib-eye steikin. mbl.is/

Veitingahúsið Kol við Skólavörðustíg í Reykjavík bætti sashi-ribeye-steik á matseðilinn fyrir um þremur vikum. Steikin seldist upp um helgina en ný sending er væntanleg á næstunni.

Gunnar Rafn Heiðarsson, einn eigenda veitingahússins, segir að viðbrögðin hafi komið skemmtilega á óvart. „Móttökurnar hafa verið mjög fínar og farið sem eldur um sinu,“ segir hann.

Sashi þýðir marmari á japönsku og vísar til marmarafitusprengingarinnar í steikinni. Gripirnir eru aldir í Finnlandi fyrir danska fyrirtækið JN Meat International, en fyrirmyndin er japanska kúakynið Wagyu frá Kobe.

Verðlaunasteik

Afurðir danska fyrirtækisins unnu til margra verðlauna í keppninni World Steak Challenge í London í sumar og meðal annars var sashi ribeyesteikin valin sú besta.

„Þarna mæta helstu kjötframleiðendur heims með steikur sínar og árangur JN hefur vakið mikla athygli, en fyrirtækið var útnefnt steikarframleiðandi ársins,“ segir Gunnar Rafn.

Blaðamaður fékk að smakka á steikinni og tekur undir með öðrum sælkerum um ágæti hennar. Hún hreinlega bráðnar í munni, en eins og segir á matseðlinum er hún borin fram með sveppamauki, rauðlaukssultu, andafitukartöflum og béarnaisesósu. steinthor@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert