Sætabrauðshelgi í SOE Kitchen

mbl.is/aðsend mynd

Hinn 15. og 16. september verður boðið upp á sérstaka sætabrauðshelgi í SOE Kitchen í Marshallhúsinu en milli klukkan 15.00 og 18.00 verður kökuhlaðborð í umsjón Önnu Luntley og Noru Wulff.

Anna og Nora munu útbúa úrval af heimagerðum ávaxtabökum, formkökum og tertum sem eru innblásnar af hráefni úr íslenskri náttúru. Þær munu útbúa eftirlætiskökur sínar með bláberjum, jarðarberjum, rabarbara, bygghveiti, birkisírópi og lakkrís svo nefnd séu nokkur dæmi um hráefni sem gefa kökunum séríslenskan keim. Kökuhlaðborðið ásamt kaffi kostar 2.500 krónur.

Anna Luntley er í teymi SOE Kitchen 101 í Reykjavík. Hún rak ásamt Sam Luntly bakery47 í Glasgow, sem var lítið handverksbakarí sem bauð upp á nýbakað brauð, smjördeigshorn, kökur og sætindi. Nora Wulff er sömuleiðis liðsmaður SOE Kitchen í Berlín, og eru bragðmiklar ávaxtakökur og sætindi sérsvið hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert