Hægeldaðir lambaskankar með hökkuðum tómötum og rósmarín

mbl.is/Eva Laufey

Lambaskankar standa alltaf fyrir sínu og þessi uppskrift er í senn fremur auðveld auk þess sem hún tryggir að allt húsið ilmar dásamlega meðan skankarnir malla. Það er Eva Laufey sem á þessa uppskrift en matarbloggið hennar er hægt að heimsækja HÉR.

Hægeldaðir lambaskankar með hökkuðum tómötum og rósmarín

Þessi uppskrift er tilvalin á haustin eða að vetri til, þegar við þurfum sárlega á mat að halda sem yljar okkur að innan. Það er líka eitthvað svo sérstaklega notalegt að hægelda mat – það færist svo mikil ró yfir heimilið.

  • 4 lambaskankar, snyrtir
  • 1 msk ólífuolía eða smjör
  • Salt og pipar
  • 1 laukur
  • 5 gulrætur
  • 400 ml hakkaðir tómatar + 1 dl soðið vatn
  • 4 msk rósmarín
  • 300 g perlukúskús

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 160°C.
  2. Brúnið lambaskankana á öllum hliðum upp úr smjöri í góðum potti sem má fara inn í ofn. Kryddið til með salti og pipar.
  3. Látið skankana standa með beinið upp í pottinum.
  4. Skerið grænmetið smátt og setjið út í pottinn ásamt rósmarín, hökkuðum tómötum og 1 dl af soðnu vatni.
  5. Setjið lok á pottinn og inn í ofn við 160°C í 2-3 klukkustundir. Það er gott ráð að ausa yfir kjötið tvisvar til þrisvar sinnum.
  6. Þegar um það bil hálftími er eftir af eldunartímanum takið þið lokið af pottinum og eldið áfram í hálftíma.
  7. Berið fram með perlukúskús sem þið eldið samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert