Hélt glæsilegt kaffiboð fyrir vinkonurnar

mbl.is/Albert Eiríksson

Á hverju hausti fer fram eitt lekkerasta kaffiboð landsins á gullfallegu heimili Alberts Eiríkssonar og Bergþórs Pálssonar. Boðið var haldið á dögunum venju samkvæmt og þótti það afskaplega vel heppnað en byrað var á því að skála í freyðivíni.

„Allt frá því ég stofnaði og rak safnið um franska sjómenn og kaffihús í Templaranum á Fáskrúðsfirði var nokkrum góðum vinkonum boðið í síðdegiskaffi þegar ég kom aftur til borgarinnar að afloknu sumri. Þessi siður hefur nú haldist í tæp tuttugu ár. Núna er ég kominn til borgarinnar eftir blíðskapar sumar í Breiðdalnum og hélt hið árlega vinkvennakaffi á dögunum. Hingað mættu prúðbúnar, sumarlegar dömur sem byrjuðu á því að skála í freyðivíni áður en þær settust við kaffiborðið," segir Albert um vinkonuboðið góða.

mbl.is/Albert Eiríksson
mbl.is/Albert Eiríksson

Rice Krispies terta með hindberjarjóma

 • 4 eggjahvítur
 • 200 g sykur
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 1/2 b Rice Krispies

Þeytið hvítur og sykur í 20 mín. Bætið við lyftidufti og Rice Krispies. Skipti í tvær kökur og bakið við 150°C í 45 mín.

 • 1/2 l rjómi
 • 1 askja hindber
 • brytjað súkkulaði

Stífþeytið rjómann, takið svolítið af honum frá til að setja ofan á. Bætið hindberjunum saman við. Setjið hindberjarjómann á milli botnanna. Dreyfið restinni af rjómanum yfir og stráið súkkulaði ofan á og nokkrum hindberjum.

mbl.is/Albert Eiríksson

Gúrkusnitta með laxamús

Árdís kom með undurgóðar snittur, einfaldar og góðar. „Einhver spurði um uppskrift af kreminu sem var ofan á gúrkusneiðunum. Það var Philadelfia rjómaostur með graslauk, reyktur lax, ferskt dill og smá rjómi sett í blender – sprautað á gúrkuna og laxabiti settur yfir.”

Dömurnar létu ánægju sína í ljós á fasbókarsíðu hópsins: „magnaður munnbiti” „Takk fyrir mjög gott”, „alveg geggjað” „þetta var þvíllíkt gott” og „mjög mjög gott”

mbl.is/Albert Eiríksson

Bökuð hindberjaostakaka

 • 12 stk Digestive súkkulaðikex
 • 80 g smjör, bráðið
 • 500 g rjómaostur (mjúkur, við stofuhita. Mér finnst best að nota MS eða Philadelphia)
 • 2 msk hveiti
 • 175 g sykur
 • vanilludropar
 • 2 egg ásamt 1 eggjarauðu
 • 140 ml sýrður rjómi
 • 400 g hindber (ég afþýði frosin ber)
 • 1 msk flórsykur

Aðferð

 1. Hitið ofninn á 180°c
 2. Myljið kexin í matvinnsluvél eða í plastpoka. Blandið því saman við bráðið smjörið. Látið í hringlaga form (ca. 20 cm í þvermál) og bakið í 5 mínútur. Kælið botninn í forminu. Hrærið rjómaostinn saman við hveitið, sykurinn, nokkra dropa af vanilludropum, eggin,eggjarauðuna og sýrða rjómann þar til blandan er orðin létt, ljós og algjörlega kekkjalaus. Hrærið 250 g af hindberjum varlega saman við (má vera meira eða minna af berjum, allt eftir smekk)
 3. Bakið í um 40-50 mínútur. Takið úr ofni og kælið kökuna í forminu.
 4. Að lokum geri þið hindberjasósu með því að láta afganginn af hindberjunum í pott og blanda 1 msk af flórsykri saman við. Bætið við flórsykri ef þið viljið að sósan sé sætari. Hitið þar til þetta er orðið að mauki og merjið með gaffli. Sigtið blönduna og berið fram með kökunni.
mbl.is