Hvað á að hafa í nesti?

Svo er hægt að taka nestið alla leið eins og ...
Svo er hægt að taka nestið alla leið eins og hér er gert. ThitareeSarmkasat

Hver kannast ekki við þá kvöl og pínu sem fylgir því að útbúa nesti fyrir börnin? Sérstaklega þau matvöndu. Sjálf hef ég reynt allt þegar kemur að dóttur minni. Hún vill helst taka með sér pakkningar sem innihalda einn ávaxtaskammt á dag að sögn framleiðenda en ég er meira á því að hún borði alvöru mat. Vandamálið er að hún borðar ekki hvað sem er. Gróft brauð og grænmeti á til dæmis ekki upp á pallborðið hjá ungfrúnni en þó fæst hún til að borða gúrku og í þarsíðustu viku borðaði hún spínatblað og uppskar klapp frá stoltum foreldrunum.

Ég hef reynt allt og nú síðast fór ég og keypti það alfallegasta nestisbox sem ég hef lengi séð í þeirri veiku von að ég gæti sjarmerað hana til að borða blessað nestið ef ég hefði það nógu fjölbreytt og flippað. Í morgun fór hún því í skólann með eftirfarandi nesti í niðurhólfaða nestisboxinu sínu:

 • 4 netta bita af sviðasultu sem afi hennar bjó til
 • 2 góða gúrkubita
 • 6 netta ostbita
 • 1 þurrkaðan ávöxt í gúmmílíki í bleikum umbúðum, sem er vonandi sæmilega hollt en lítur út eins og nammi

Varanestishugmyndir eru langt á veg komnar því það þarf víst að bjóða upp á fjölbreytni.

 • Ab-mjólk og smá múslí – það finnst henni spennandi og ég keypti lítil box sem hægt er að setja jógúrt, sósur og annað þess háttar í.
 • Milligróft brauð og spægipylsu/hangikjöt – barnið er hrifið af söltuðu áleggi þannig að kannski tekst mér að koma ofan í hana nettri samloku. Í versta falli næ ég mér í smákökuform og sker út stjörnu eða einhverja álíka vitleysu.

...lengra er ég ekki komin með listann góða en bíð spennt eftir því hvernig gekk í dag og vona að það gangi enn betur á morgun.

Samkvæmt leiðbeiningum frá MAST (Matvælastofnum) er að mörgu að huga þegar nesti er útbúið og má þar nefna:

 • Hollusta/næringargildi nestisins
 • Rétt meðhöndlun á matnum
 • Val á umbúðum
 • Hollt og gott mataræði skiptir miklu máli

Börn þurfa hollan og fjölbreyttan mat til að fá orku, vítamín og steinefni sem líkaminn þarfnast fyrir vöxt og góða heilsu. Með fjölbreyttu mataræði er átt við að æskilegt sé að borða eða drekka daglega:

 • Trefjaríkar kornvörur, svo sem gróft brauð, haframjöl/hafrahringi, kartöflur, pasta eða hrísgrjón
 • Ávexti og grænmeti, bæði með máltíðum og á milli þeirra
 • Kjöt, fisk, egg eða baunir/linsur
 • Mjólkurvörur, veljið frekar fitulitlar vörur
 • Vatn við þorsta
 • Lýsi

Hvert er markmiðið?

Á nestið að duga allan daginn eða bara um morguninn eða eftir hádegi? Misjafnt er hvað skólarnir bjóða upp á og skal hugsa nestið út frá því. Hollusta skal líka höfð í fyrirrúmi og sykur ætti að vera á algjörum bannlista (reyndar er hann það á flestum stöðum).

Reynið að hafa nesti fjölbreytt ef það á að duga allan daginn þannig að það innihaldi bæði kolvetni, prótein, grænmeti og ávexti. Hvað svo sem þið veljið skiptir ekki öllu en fjölbreytnin skyldi vera í fyrirrúmi. Millimál eru nauðsynleg því ekki ættu að líða meira en 3 til 3,5 klukkustundir milli máltíða hjá börnum.

Eins er mikilvægt að barnið sé með góðan vatnsbrúsa meðferðis. Barnið þarf að hafa aðgang að vökva allan daginn.

Ber eru vinsælt millimál, sem og þurrkaðir ávextir, hnetur, möndlur og rúsínur. Ostur er líka vinsæll í nestisbox og snjallt er að skera niður ostbita og hafa í nestisboxinu. Soðin egg eru líka nokkuð snjöll, kirsuberjatómatar og niðurskorið grænmeti.

MS heldur úti frábærum vef þar sem hægt að fá hugmyndir að snjöllu skólanesti. Hægt er að skoða síðuna HÉR.

Snjöll úrfærsla og ákaflega fjölbreytt.
Snjöll úrfærsla og ákaflega fjölbreytt. mbl.is/MS
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »