Börnin eru skemmtilegustu viðskiptavinirnir

Birgir Reynisson og Herborg Hjelm hjá Matartímanum.
Birgir Reynisson og Herborg Hjelm hjá Matartímanum. Kristinn Magnússon

Síðastliðið haust fór Sölufélag garðyrkjumanna af stað með verkefnið Matartíminn sem runnið er undan rifjum þeirra Herborgar Hjelm og Birgis Reynissonar. Herborg er fyrrverandi rekstrarsérfræðingur skólamötuneyta hjá Reykjavíkurborg og gekk ávallt með þann draum að fara út í sinn eigin rekstur og tryggja með þeim hætti að börnum væri boðin besta mögulega fæðan sem kostur væri á. Þau Birgir deila þessari bjargföstu trú og boða byltingu í næringu barna. Áherslan sé á besta hráefni sem kostur sé á og í samstarfi við íslenska garðyrkjubændur hefur Matartíminn hafið sig til flugs.

„Það skiptir svo miklu máli hvað við gefum börnunum að borða, segir Herborg sem í daglegu tali er titluð forstöðumaður Matartímans. „Við leituðum til Sölufélags garðyrkjumanna með hugmyndina og þeir tóku henni opnum örmum,“ segir Herborg.

Hið fullkomna samstarf

„Þarna er verið að nýta eitt besta grænmeti í heimi og Sölufélag garðyrkjumanna hefur þarna tækifæri til að nýta betur hráefni sem ekki kemst í verslanir. Þá erum við að tala um gulrætur sem eru of litlar og þar fram eftir götunum. Splunkunýtt góðgæti sem mögulega uppfyllti ekki útlitsstaðla en er að öllu öðru leyti jafn góð vara. Fyrir vikið hefur nýtingin hjá Sölufélaginu aukist svo um munar og matarsóun hefur minnkað mjög mikið. Garðyrkjubændur eru ákaflega stoltir af að stuðla að því að íslenskt grænmeti sé í auknum mæli á diskum skólabarna. Krakkarnir eru svo skemmtilegur neytendahópur og til að mynda fór allt fjólubláa blómkálið sem framleitt var í sumar beint í skólana og kláraðist upp til agna.

Stærsti viðskiptavinahópurinn er leikskólarnir og hafa viðtökurnar verið framar björtustu vonum. „Við í raun tökum yfir eldhúsið í skólunum. Mætum með morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu fyrir börnin. Þetta er þægileg lausn fyrir skólana og hefur mælst einkar vel fyrir. Matseðlarnir eru inni á heimasíðu Matartímans og þar er jafnframt hægt að sjá útreiknað næringargildi fyrir hvern rétt. Gegnsæið er 100% enda hráefnið nánast allt unnið frá grunni,“ segir Herborg.

Meðalneysla töluvert yfir viðmiðunarmörkum

„Samkvæmt viðmiðum Landlæknisembættisins eiga börn að borða 500 grömm af grænmeti og ávöxtum á dag. Við erum í dag í 640 grömmum af grænmeti á dag og eru ávextirnir þá ótaldir. Þetta er því mikið fagnaðarefni að börnin skuli borða svona vel af grænmetinu en okkar reynsla er að börnin séu sólgin í það. Við beitum kannski líka öðrum aðferðum. Við litaröðum grænmetinu, skerum það öðruvísi...þetta eru lítil atriði sem skipta þó máli. Aðalatriðið hjá okkur er að við séum að bjóða upp á eins holla og góða fæðu og kostur er. Við notum ekki sykur og lágmörkum salt eins og kostur er.“

Allt brauð er einnig bakað á staðnum. „Við lögum allt deig sem við sendum í leikskólana, því fá börnin alltaf nýbakað brauð. Við notum líka eins lítið hveiti og kostur er og þessa dagana erum við í samstarfi við Þorvaldseyri og fáum frá þeim fínt bygg sem við bökum úr. Brauðin minna eiginlega á gömlu normalbrauðin hvað áferð og þéttleika varðar en það er eitt af markmiðunum að vera með góð og saðsöm brauð. Við höfum heyrt það frá foreldrum að börnin séu síður svöng þegar þau koma heim og rólegri. Eins hafa sumir talað um að börnin sofi betur.“

Sjá sérstaklega um ofnæmisbörnin

Matartíminn sérhæfir sig jafnframt í mat fyrir börn með ofnæmi. „Við tökum það ábyrgðarhlutverk mjög alvarlega. Þannig hafa skólar sem eru með matráða sem eru á leið í frí, leitað til okkar á meðan enda kannski ekki hægt að ætlast til þess að afleysingastarfsmaður axli jafn mikla ábyrgð,“ segir Herborg. Allt hráefnisval hjá þeim miðar við að þetta. Þannig er notuð laktósafrí mjólk og þar fram eftir götunum og glútenfrítt eins og kostur er.

Herborg og Birgir eru staðföst í trú sinni á að gott hráefni og góður matur skipti öllu þegar kemur að næringu fyrir börn. „Börn eru líka svo frábær hópur,“ segir Birgir og Herborg bætir við að þau séu langskemmtilegustu viðskiptavinirnir „Starfsfólk Matartímans er líka duglegt að fara í skólana og vinna þar. Taka púlsinn á því sem er verið að gera og hvernig börnunum líkar maturinn. Það er alltaf einhver mættur klukkan tíu til að spyrjast fyrir um hvað sé í matinn. Bæði hafa þau mikinn á huga á því hvað er í matinn auk þess sem þau deila skoðunum sínum umbúðalaust.“

Krakkarnir mjög meðvitaðir

„Það er líka áhugavert að sjá eldri krakkana og þeirra neysluhætti. Það er sérstaklega gaman að fylgjast með krökkunum í unglingadeildum. Bæði eru þau sólgin í grænmetið enda mega þau fá sér eins mikið og þau vilja. Við skömmtum ekki á diskana enda væri það glórulaust. Af hverju að setja kartöflur á diskinn hjá einhverjum sem borðar ekki kartöflur? Þess í stað ráða krakkarnir þessu sjálf og matarsóunin er nánast enginn. Krakkarnir eru mjög samfélagslega þenkjandi og vigta til að mynda alla matarafganga og eru mjög meðviðtuð. Í einni unglingadeild sem við þjónustum eru 550 börn mat á hverjum degi og samanlagt vega afgangarnir 5-10 kíló á dag sem er framúrskarandi árangur. Eiginlega fáheyrður,“ segir Birgir.

„Þetta eru svo skemmtilegir krakkar og við fáum svo mikið til baka frá þeim. Þau eru ánægð með matinn og hika ekki við að faðma mann ef svo ber undir,“ segir Herborg en spurð um framhald Matartímans stendur ekki á svörum. „Við fórum af stað í haust en það var tekin mjög meðvituð ákvörðun um að vanda vel til verka. Sölufélagið getur vissulega bætt við sig verkefnum en í dag erum við að afgreiða 3.000 máltíðir á dag – fimm daga vikunnar og notum tvö tonn af grænmeti í hverri viku.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert