Einfalt kemur okkur oft ansi langt 

Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir einkaþjálfari ásamt syni sínum.
Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir einkaþjálfari ásamt syni sínum. mbl.is/

Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir einkaþjálfari hefur helgað líf sitt heilbrigðum lífsstíl. Hún heldur úti uppskriftasíðunni heidiola.is og Snapchat-aðganginum heidifitfarmer, þar sem hún deilir ýmiss konar hollum og girnilegum uppskriftum í bland við ómótstæðilegar hnallþórur. Sömuleiðis heldur hún úti vinsælum Snapchat-aðgangi þar sem hún deilir ýmsum fróðleik um næringu, barnauppeldi og allt mögulegt með fylgjendum sínum.  

Aðalheiður er mikill reynslubolti þegar kemur að hreysti og líkamsrækt, útskrifaðist með einkaþjálfararéttindi frá Einkaþjálfaraskóla World Class árið 2011 og hefur samhliða einkaþjálfuninni verið stórt nafn í fitness-heiminum hérlendis, hreppti annað sæti á Arnold Classic í Bandaríkjunum árið 2012, varð Íslandsmeistari í fitness, Loaded Cup-meistari og heimsbikarmeistari svo eitthvað sé nefnt. Hún hefur þó lagt fitness-skóna á hilluna og hefur undanfarna mánuði einbeitt sér að nýju hlutverki, móðurhlutverkinu. Eins og flestar nýbakaðar mæður kannast við er margt sem huga þarf að, bæði á meðgöngu og eftir að litlu krílin koma í heiminn.  

Morgunmatur, fita og nesti 

„Ég fæ margar fyrirspurnir varðandi hvað hentar á meðgöngu, bæði varðandi hreyfingu og mataræði. Margar ætla sér loks að fara af stað í þjálfun en ég ráðlegg konum að halda sig við það sem þær hafa verið að gera. Þ.e. er ef viðkomandi er vön að iðka ákveðna hreyfingu, þá mæli ég með að halda áfram því sem líkaminn er vanur en vera ekki að fara út í eitthvað alveg nýtt,“ segir Aðalheiður. Hún segir vitaskuld skipta máli að vanda valið þegar kemur að mataræðinu en boð og bönn séu ekki vænleg til vinnings. Þó sé ágætt að hafa hugfast að hugmyndin um að borða fyrir tvo sé ekki endilega hjálpleg. „Auðvitað er misjafnt hvað hentar hverri og einni, en ég legg mikið upp úr að borða fjölbreytt og setja engar ófrávíkjanlegar reglur þegar kemur að mataræðinu. Reyna heldur að hliðra til og laga að aðstæðum. Það er ekkert gaman að geta ekki notið veitinga í saumaklúbbnum með stelpunum af því að hann er á þriðjudagskvöldi en ekki laugardegi. Fyrir flesta er óþarfi að vera með slíkt algjörlega meitlað í stein.“  

mbl.is/

Aðalheiður segir það að koma sér aftur af stað eftir barnsburð þurfi ekki að vera flókið eða pakkað í prógrömm en hún ráðleggur flestum sem til hennar leita að huga vel að þremur lykilþáttum: Fá sér alltaf morgunmat, borða vel af góðri fitu og passa upp á að vera alltaf með eitthvað til að narta í á flakkinu. „Það getur skipt sköpum að vera með orkustykki, hnetur eða ávexti í töskunni til að grípa í þegar hungrið herjar á. Ef ekki þá getur maður orðið of svangur og einfaldlega sökkt sér í óhollustu sem annars væri ekki jafnfýsilegur kostur,“ útskýrir Aðaheiður.  

Neikvæðir fylgifiskar samfélagsmiðlanna 

Hún segir margar brenna sig á því að ætla of snemma af stað eftir barnsburð og sé það oftar en ekki neikvæður fylgifiskur samfélagsmiðlanna sem hafi þau áhrif. „Þar sjáum við oft konur sem eru ótrúlega fljótar að koma sér í form og það er auðveld gryfja að detta í. Þegar allt kemur til alls snýst þetta ekki um að komast sem allra fyrst í gallabuxurnar eða vera sneggri en næsta að komast aftur í fyrra horf. Þetta snýst um að njóta þess að vera með barninu og geta sinnt því sem best,“ bendir Aðalheiður á. Hún segir gamla góða göngutúrinn feykinóg til að byrja með og svo séu grindarbotnsæfingarnar gulls ígildi. „Að því ógleymdu að þegar börnin fara að hlaupa er eins gott að vera fullur af góðri orku til að geta sprett úr spori,“ segir hún og hlær að lokum.  

mbl.is/

Haframúffur Heidi 

Hitið ofninn í 200°.

  • 2 stappaðir bananar (betra að hafa þá vel þroskaða)
  • 2 egg
  • 8-10 bollar af höfrum (fer svolítið eftir hversu stórir bananarnir eru, þetta á að vera smá klístrað, ekki of þurrt) Ég nota hafra frá Til hamingju.
  • 1 Ella´s Kitchen-barnamauksskvísa með Strawberries + apples (getið notað hvaða bragð sem þið viljið).
  • 1 dl Ab-mjólk, ég nota laktósafría frá Örnu.
  • 2 msk. Sukrin Gold-púðursykur – gott úrval af sykurstaðgenglum í Nettó.
  • 2 tsk. vínsteinslyftiduft
  • ½ tsk. salt

Aðferð:

  1. Stappið banana saman og setjið í skál, setjið svo öll hin innhaldsefnin út í og hrærið með sleif eða í hrærivél.
  2. Setjið í muffins-pappaform, silicon eða álform (ekki gleyma að spreyja með olíu), getið líka sett í brauðform og þá er þetta eins og eins konar bananabrauð.
  3. Það skemmtinlega við þessa uppskrift er að þið getið í raun bara sett það sem ykkur dettur í hug hverju sinni út í, t.d. haft aðra bragðtegund af skvísu, í stað Ab-mjókur getið þið notað súrmjólk eða jógúrt, getið notað hvítan Sukrin-sykur og bætt svo því sem ykkur dettur í hug út í eins og t.d. rúsínum, döðlum, chia-fræjum, kókosmjöli. Svo er hægt að smyrja þær með hverju sem er eins og smjöri, osti eða hnetusmjöri. Fyrir börn sem eru nýfarin að borða má líka mylja hafrana í matvinnsluvél eða mixara áður, gera þá fína eins og hveiti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert