Fettuccine með ofnbökuðum camembert

mbl.is/Berglind Guðmunds

Hvað er betra en pasta sem er löðrandi í bráðnum camembert og öðru gúmmelaði? Nákvæmlega ekkert enda er þessi uppskrift mögulega á pari við fullkomnun. Hreinræktað haustfæði sem hressir okkur við.

Það er meistari Berglind Guðmundsdóttir á GRGS.is sem á heiðurinn að þessari snilld en matarbloggið hennar Gulur, rauður, grænn og salt er hægt að nálgast HÉR.

Fettuccine með ofnbökuðum camembert
Fyrir 4

  • 500 g Fettucini, t.d. frá Pastella
  • 1 (250 g) camembert-ostur
  • 4 hvítlauksrif
  • 5 blöð fersk basilíka
  • salt og pipar
  • extra virgin ólífuolía
  • parmesan, rifinn
  • 1 box kirsuberjatómatar
  • 150 g ferskt spínat
  • 100 g pekanhnetur, ristaðar

Aðferð:

  1. Takið ostinn úr kassanum og setjið í álpappír og vefjið honum lauslega um ostinn svo hann leki ekki um allt (sjá mynd að neðan). Skerið toppinn af ostinum.
  2. Skerið hvítlaukinn í sneiðar og þrýstið lítillega ofan í ostinn. Setjið basilíku yfir allt, piprið og hellið ólífuolíu yfir ostinn.
  3. Setjið í 180°C heitan ofn í um 20-25 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn.  Á sama tíma skerið tómatana í tvenn, hellið ólífuolíu yfir tómatana, saltið og piprið og hitið í ofni með ostinum þar til osturinn er farinn að linast.
  4. Sjóðið pastað í saltvatni þar til það er orðið „al dente“.
  5. Setjið olíu á pönnu og léttsteikið spínatið.
  6. Takið camembert-ostinn og tómatana úr ofni þegar það er tilbúið. Látið tómatana og spínatið saman við pastað og stráið parmesan saman við. Kryddið með salti og pipar.
  7. Setjið pastað í skál, látið ostinn yfir pastað og berið fram með hlynsírópi og parmesan.
mbl.is/Berglind Guðmunds
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert