Frönsk lauksúpa sem allir ráða við

mbl.is/Delish

Frönsk lauksúpa er í hugum margra hið heilga gral franskrar matargerðar. Að sama skapi mikla margir fyrir sér gerð hennar en hér er að finna alveg hreint úrvals uppskrift af lauksúpu sem fær bragðlaukana til að góla af gleði.

Í þessari uppskrift eru tvær breytingar gerðar frá klassískri lauksúpu:

  • Notað er hvítvín í staðinn fyrir rauðvín eða sérrí.
  • Í uppskriftinni er blandað saman kjúklinga- og nautasoði. útkoman er örlítið sætari á bragðið en alveg jafn góð.

Frönsk lauksúpa sem allir ráða við

Fyrir fjóra

  • 4 msk smjör
  • 3 stórir laukar, skornir í tvennt og síðan í þunnar sneiðar
  • 2 msk hveiti
  • sjávarsalt
  • nýmalaður svartur pipar
  • 120 ml hvítvín
  • 0,5 l kjúklingasoð
  • 1 l nautasoð
  • 8 stilkar af timían
  • 8 sneiðar af baguette brauði
  • 1 bolli rifinn gæðaostur sem að þér finnst góður.

Aðferð:

  1. Bræðið smjörið í potti. Bætið lauknum saman við og eldið. Hrærið reglulega í uns laukurinn er orðinn gullinbrúnn og fagur.
  2. Bætið þá hveitinu saman við og eldið í 1 mínútu. Kryddið með salti og pipar. Bætið næst við hvítvíni og látið malla uns vökvinn hefur gufað upp.
  3. Bætið þá bæði kjúklinga- og nautasoði út í pottinn auk timíans. Látið suðuna koma upp og lækkið þá undir. Látið malla við lágan hita í 15 mínútur. Saltið og piprið eftir smekk og fjarlægið timíanið.
  4. Kveiki á grillinu. Setjið baguette sneiðarnar á smjörpappír á ofngrind og setjið vel af osti á. Setjið undir grillið uns osturinn er gullinbrúnn og bráðnaður.
  5. Berið súpuna fram í litlum mótum líkt og sést á myndinni og setjið tvær sneiðar af baguette ofan á hverja súpuskál.
  6. Auðvitað megið þið bera súpuna fram hvernig sem er og sumir setja baguette brauðið beint ofan á súpuna, síðan ostið og skella öllu beint inn í ofn til að osturinn bráðni. Þið veljið ykkar aðferð en súpan er æði og njótið vel.
mbl.is/Delish
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert