Linda Ben hélt ógleymanlegt afmæli

mbl.is/Linda Ben

Linda Ben hélt fimm ára afmæli sonar síns hátíðlegt á dögunum og þar sem sá litli er forfallinn Legó-aðdáandi vildi hann ólmur hafa Star Wars-þema og Star Wars-kalla á kökunni. Linda valdi svartan og hvítan lit og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var veislan upp á tíu!

Nánar má lesa um undirbúninginn HÉR.

Þetta eru veitingarnar sem boðið var upp á:

 • Pylsur með öllu helsta meðlætinu, sumar voru beikonvafðar og auðvitað var kartöflusalat með
 • Star Wars drip-súkkulaðikaka með hindberjafyllingu
 • Star Wars-sykurpúðar
 • Hvítar rice crispies-kökur
 • Popp
 • Gjafakassar með nammi sem börnin fengu með sér heim eftir afmælið
 • Ostabakki með þremur mismunandi ostum, ritz-kexi og sultu
 • Saltstangir og Vogaídýfa
mbl.is/Linda Ben
mbl.is/Linda Ben
mbl.is/Linda Ben

Star Wars-sykurpúðar

 • Sykurpúðar
 • 20 cm kökupinnar
 • Svartur matarlitarpenni

Aðferð:

 1. Stingið kökupinnunum niður í sykurpúðana og teiknið andlit á sykurpúðana eins og á myndinni, smá föndur en annars afar einfalt.

Hvítar rice crispies-kökur:

 • 70 g smjör
 • 330 g sykurpúðar
 • 240 g rice crispies
 • 100 g hvítt súkkulaði
 • Svart kökuskraut

Aðferð:

 1. Setjið rice crispies í stóra skál.
 2. Setjið smjörpappír ofan í ofnskúffu og hafið aðra jafnstóra örk við höndina.
 3. Bræðið smjörið og sykurpúðana í potti á vægum hita.
 4. Hellið sykurpúðablöndunni ofan í skálina með rice crispiesinu og blandið hratt saman (ef það gengur illa er sniðugt að setja smá olíu á hendurnar og blanda saman með höndunum).
 5. Hellið blöndunni á ofnskúffuna og setjið smjörpappír yfir, fletjið svo út með kökukefli þangað til blandan fyllir út ofnskúffuna. Setjið ofnskúffuna svo í frysti í um það bil 10 mín. (líka hægt að láta þetta stirðna upp á borði í klukkutíma ef ekki er pláss í frysti). Skerið kökuna í u.þ.b. 4×4 kassa.
 6. Bræðið hvítt súkkulaði og dreifið því yfir kökurnar ásamt svörtu kökuskrauti.

Star Wars drip-súkkulaðikaka með hindberjafyllingu:

 • 7 dl sykur
 • 350 g smjör
 • 4 egg við stofuhita
 • 9 dl hveiti
 • 2 tsk. matarsódi
 • 2 dl kakó
 • 6 tsk. vanillusykur
 • 2 tsk. salt
 • 2 dl kalt vatn
 • 5 dl súrmjólk

Aðferð:

 1. Smjör og sykur er þeytt vel saman.
 2. Eggjum við stofuhita bætt saman við einu í einu. (Ef eggin eru köld látið þau þá liggja í volgu vatni í 5 mín fyrst).
 3. Blandið þurrefnunum saman við í aðra skál og sigtið.
 4. Í aðra skál blandið saman súrmjólk og vatni.
 5. Setjið til skiptis þurrefna- og súrmjólkurvatnsblönduna út í eggjablönduna og blandið saman varlega.
 6. Smyrjið 20 cm form með smjöri, vigtið deigið og skiptið deiginu í fjóra jafna hluta ofan í formin (ath. ég á aðeins tvö 20 cm form og þurfti því að baka kökuna í tveimur hollum, það er því í góðu lagi þó svo að tveir hlutar af deiginu þurfi að bíða svolítið uppi á borði á meðan beðið er eftir formunum út úr ofninum, munið bara að þrífa formin á milli og smyrja þau upp á nýtt.
 7. Kakan bökuð í miðjum ofni við 180°C með blæstri í um það bil 40 mín. Tíminn er mismunandi og því þarf að fylgjast vel með kökunni inni í ofninum. Góð leið til að sjá hvort kakan sé tilbúin er að hrista formið smávegis og ef kakan virðist fljótandi undir þarf hún lengri tíma en ef hún virðist stinn þá stingið prjóni í kökuna og ef ekkert deig kemur með þá er hún tilbúin.
 8. Kælið botnana vel, skerið þá þvert í sundur til þess að fá fleiri lög í kökuna. Ath. þessi uppskrift gefur átta hálfa botna en aðeins eru notaðir sex, það er því í lagi að mistakast.

Hindberjasmjörkrem:

 • 500 g smjör
 • 8oo g flórsykur
 • 450 g frosin hindber

Aðferð:

 1. Þeytið smjörið vel þangað til það er létt og loftmikið.
 2. Setjið flórsykurinn út í smjörið og haldið áfram að þeyta alveg rosalega vel.
 3. Setjið frosnu hindberjin í pott og hitið þau að suðu á sama tíma og þau eru kramin vel.
 4. Kremjið soðnu berin í gegnum sigti og passið að fræin fari ekki í gegnum sigtið. Leyfið safanum að kólna svolítið, hægt að setja skálina sem safinn er í ofan í ísbað (ekki setja klaka ofan í safann því hann mun þynna út berjasafann). Ísbað er gert með því að setja klaka og kalt vatn í stóra skál og setja minni skálina ofan í, án þess að láta vatn renna í minni skálina.
 5. Setjið safann svo ofan í skálina með smörkreminu, blandið fyrst hægt saman svo það skvettist ekki allt út um allt, aukið svo hraðann og hrærið mjög vel saman við.
 6. Smyrjið kremi á hvern kökubotn og raðið saman sex lögum. Ath. að ekki þarf að klára kremið.

Hvítt smjörkrem:

 • 500 g smjör
 • 700 g flórsykur

Aðferð:

 1. Þeytið smjörið vel þangað til það er létt og loftmikið.
 2. Setjið flórsykurinn út í smjörið og haldið áfram að þeyta alveg rosalega vel þangað til kremið verður hvítt.
 3. Setjið allt kremið á kökuna, ath. að það verður mjög þykkt lag af kremi á allri kökunni, það er gert til þess að minnka líkur á að kökumylnsnur og bleikt krem sjáist á yfirborðinu. Svo er kremið minnkað hægt og rólega á kökunni á sama tíma og slétt er úr kreminu.

Svart drip

 • Start Candy Melt
 • 3-4 msk. bragðlítil olía

Aðferð:

 1. Setjið candy meltið í skál og bræðið í örbylgju, gott að byrja á 15 sek. í einu og hræra á milli því maður vill alls ekki hita það of mikið.
 2. Þegar allir molarnir eru bráðnaðir, bætið þá 1 msk. af olíu út í í einu og hrærið vel. Það er gert til þess að þynna blönduna, en maður þarf að þynna ekki of mikið. Til þess að athuga hvort maður sé með rétta þykkt er gott að setja glas á disk og snúa botninum á glasinu upp. Setjið candy melt á botninn á glasinu og ef það lekur niður glasið eins og þú vilt að það leki niður kökuna þá er blandan tilbúin.
 3. Notið skeið til þess að setja candy meltið á brún kökunnar og látið leka mismikið. Hellið svo candy melt yfir miðju kökunnar og sléttið svolítið úr ef þarf. Setjið kökuna í 5 mín. inn í ísskáp til þess að herða candy meltið.
mbl.is/Linda Ben
mbl.is/Linda Ben
mbl.is