Nanna með nýja bók

Nanna Rögnvaldardóttir.
Nanna Rögnvaldardóttir. mbl.is/aðsend mynd

Út er komin bókin Beint í ofninn eftir Nönnu Rögnvaldardóttur sem sjálfsagt þarf ekki að kynna fyrir neinum. Nanna hefur sent frá sér fjölmargar matreiðslubækur en í þessari nýjustu bók sinni blandar hún saman tveimur bókahugmyndum; annars vegar bók af sama tagi og Maturinn hennar Nönnu, sem hún sendi frá sér fyrir nokkrum árum, þar sem áherslan var á tilbrigði, að segja frá því hvernig breyta mætti uppskriftum og nota önnur hráefni, og jafnframt á nýtingu á því sem til er í skápunum.

Nanna segist jafnframt hafa verið með hugmynd að bók með einföldum uppskriftum þar sem undirbúningur væri í lágmarki og lítið þyrfti að eiga við matinn á eldunartímanum. Þess vegna sé bókin sett upp þannig að önnur hver opna er mynd af réttinum og hráefni sem í hann fer, ásamt einfaldri uppskrift, en á eftir kemur önnur opna með margs konar viðbótarefni. Sem sagt, stutta útgáfan dugir ágætlega en þeir sem hafa áhuga fá alls konar fróðleik og hugmyndir í kaupbæti.

Hverjum hentar hún best?

Fólki sem vill gjarna elda hollan og góðan mat frá grunni án þess að eyða löngum tíma í matargerðina. Fjölskyldum þar sem sumir eru grænmetisætur eða vegan en aðrir ekki. Fólki sem vill vinna gegn matarsóun og nýta matinn betur. Litlum fjölskyldum, því að uppskriftirnar eru yfirleitt miðaðar við tvo til þrjá en svo eru alltaf gefnar leiðbeiningar um hvernig megi stækka þær. Eða minnka, svo að þær henti fyrir einn.

Ráða allir við uppskriftirnar?

Það held ég, það er ekkert flókið þarna og ég reyni að setja uppskriftir fram þannig að þær henti fyrir alla, líka þá sem hafa ekki mikla reynslu af eldamennsku. Ég er líka með leiðbeiningar um hvað megi undirbúa fyrirfram eða „preppa“ til að gera þetta enn auðveldara.

Mun hún auðvelda lífið?

Örugglega fyrir suma. Bæði eru þetta einfaldar uppskriftir og svo reyni ég líka að láta fylgja með alls konar fróðleik, upplýsingar og uppástungur sem fólk getur nýtt sér til að laga uppskriftirnar að sínum smekk og þörfum. Og svo eru ótal hugmyndir að því hvernig nýta má afganga, bæði af einstökum réttum og af ýmsu hráefni, kannski kryddi eða sósu sem maður hefur keypt sérstaklega til að nota í einhvern rétt og situr svo uppi með.

Hver er uppáhaldsuppskriftin þín?

Ég á erfitt með að gera upp á milli þeirra en af þeim sem eru í bókinni er það kannski sellerírótargratín með valhnetum, réttur sem getur bæði verið aðalréttur og meðlæti. Eða þá vínberjakjúklingurinn sem er á forsíðunni.

Hvaða uppskrift er auðveldust?

Engin þeirra er flókin en það er náttúrlega misjafnt hvað fólki finnst auðvelt. Kannski sú allra auðveldasta sé shakshuka með baunum, það þarf bara að saxa lauk og papriku og opna tvær niðursuðudósir, blanda öllu saman og krydda, brjóta egg yfir og baka.

Hvaða uppskrift myndir þú bjóða upp á í matarboði?

Af uppskriftunum úr bókinni myndi ég mögulega velja harissa-lambasteik, sem er með gulrótum, kartöflum, apríkósum og möndlum, ég hef einmitt verið með hana í matarboði þar sem hún féll vel í kramið. Ef gestirnir væru vegan fengju þeir kannski bakaðar eggaldinsneiðar með grænmeti eða fyllta portobello-sveppi með kjúklingabaunum og paprikumauki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert