Nautasteik að hætti Marco Pierre White

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Marco Pierre White er með merkilegri matreiðslumönnum veraldar og er saga hans sérlega áhugaverð. Jafnframt kunni hann að elda betur en flestir og því er þessi uppskrift gæðavottuð í gegn ef svo má að orði komast. 

Læknirinn elhúsinu - Ragnar Freyr Ingvarsson á heiðurinn að þessari eldun en hann segist vera mikið að stúdera Pierre White þessa dagana og hafi gaman að. 

Nánar má lesa um Ragnar og Marco Pierre White HÉR.

Snöggsteiktar nautasteikur að hætti Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati

Þetta telst seint vera merkileg eldamennska - en þar sem þetta heppnaðist vel þá fannst mér skemmtilegt að greina frá því. 

Svo má jafnframt benda á að ég er ekki talsmaður Knorr - maður má nota hvaða kraft sem er, frá hvaða merki sem er! Þetta var bara það sem ég átti til í skúffunni. 

Hráefnalisti fyrir 6 

 • 6 steikur (200-250g)
 • 3 msk jómfrúarolía
 • 2 kjötkraftsteningar 
 • pipar
 • smjör til steikingar

Fyrir sósuna

 • 4 msk Worchestershire sósa
 • 400 ml rjómi
 • 3 msk þurrkuð græn piparkorn
 • salt og pipar eftir smekk

Kartöflur

 • 4 msk hvítlauksolía
 • ferskt timjan
 • salt og pipar

Blanda af íslensku grænmeti

Aðferð:

 1. Ég notaði sumsé venjulegan nautatening.
 2. Og maukaði hann vel niður í jómfrúarolíu með fingrunum.
 3. Svo var nautakraftsmaukinu bara nuddað vandlega inn í kjötið. 
 4. Næst var að steikja kjötið að utan í nógu af smjöri þangað til að það var fallega karmelliserað á hvorri hlið. Ég steikti í tæpar 2 mínútur á hvorri hlið og setti svo steikurnar til hliðar á meðan ég útbjó sósuna.
 5. Og þetta er með aleinföldustu sósum sem ég hef gert! Hellti Worchestershiresósunni á pönnuna og sauð upp og svo niður um helming. 
 6. Næst, nóg af rjóma - sem var líka látin krauma og sjóða niður um þriðjung. 
 7. Svo var bara að bæta grænum piparkornum saman við og láta krauma í tvær til þrjár mínútur í viðbót.
 8. Svo var lítið annað að gera en að koma steikunum fyrir og bera á borð fyrir svanga gesti.
 9. Við höfðum auðvitað byrjað á kartöflunum. Fyrst skornar niður í helminga, velt upp úr hvítlaukolíu og svo bragðbættar með salti, pipar og fersku timjan. Bakað í forhituðum 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur.
 10. Salatið var heldur ekki flókið, enda þarf það ekkert að vera það. Bara að raða fersku íslensku grænmeti ofan á fersk salatblöð sem búið er að skola. Smá fetaostur til að lyfta því upp og gefa aðra áferð.
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is