Skotheld ráð til að tækla óvinsælasta húsráðið

Þvottur.
Þvottur. AFP

Undirrituð er svo heppin að þykja húsverkið hræðilega sem þjóðin kaus óvinsælasta húsverkið á dögunum eiginlega bara fremur skemmtilegt. Eða svona þannig.

Eins og alþjóð veit þá er samanbrot og frágangur þvotts það leiðinlegasta sem hægt er að hugsa sér samkvæmt nýjum (afar óformlegum) könnunum.

Sjálf var ég einu sinni í þeim hópi og samdi meira að segja þannig áður en ég gifti mig að ég þyrfti aldrei að sinna þessu tiltekna verki. Ég gæti þvegið og þurrkað en seint myndi ég brjóta saman þvottinn og ganga frá honum.

Síðan eru liðin mörg ár og ég tel mig hafa þroskast töluvert og þróast nokkuð sem mannvera sem býr í samfélagi við aðra. Þvotturinn er því formlega allur á mínum herðum (ég tók hann sjálfviljug að mér) og hér er listinn minn góði sem útskýrir hvernig ég fer að.

Þvottaaðstaðan verður að vera í lagi og það er nauðsynlegt að hafa eitthvað borð til að vinna við. Að því sögðu getur boðið verið stofuborðið eða borðstofuborðið. Það er enginn að segja að fólk með lítil eða asnaleg þvottahús geti ekki gengið sómasamlega frá þvottinum.

Sjálf á ég til að þvo allt í einu, mynda huggulegt fjall sem gæti valdið mörgum kvíða en hér kemur aðferðin.

  1. Ég á fullt af óhreinatauskörfum sem ég nota í þessu tilfelli undir hreina þvottinn. Ég byrja því á að flokka hann.
  2. Hver á heimilinu á sína körfu. Handklæði, rúmföt og annað fara í aðra körfu.
  3. Sokkar fara í sér körfu. Þar blanda ég saman öllum sokkum heimilisins.
  4. Síðan tek ég hverja körfu fyrir sig og brýt saman. Fyrst reyni ég að taka stóra dótið og svo vinn ég mig niður. Þegar ein karfa er frá geng ég strax frá þvottinum.
  5. Svo endurtek ég þetta koll af kolli. Hér liggur í rauninni ekkert á og þetta býður upp á góða svindlmöguleika og svo getur maður látið sjálfan sig sitja á hakanum og farið bara beint í sína körfu og náð sér í næsta krumpaða dress.

Þið skiljið vonandi hvað ég er að fara en þá er komið að afþreyingunni. Þegar ég brýt saman þá er ég alltaf að hlusta á eitthvað skemmtilegt eða horfa á eitthvað... í friði. Alein með sjálfri mér og það eru allir svo þakklátir mér fyrir að brjóta saman þvottinn þar sem allar skúffur eru tómar að það dirfist ekki nokkur maður (eða barn) að trufla frúna.

Og þannig fer ég að...

mbl.is