Hugmyndin kviknaði við eldhúsborðið

Arna María Hálfdánardóttir, sölu- og markaðsstjóri Örnu.
Arna María Hálfdánardóttir, sölu- og markaðsstjóri Örnu. Kristinn Magnússon

Árið 2013 var mjólkurgerðin Arna formlega stofnuð á Ísafirði. Síðan þá hefur fyrirtækið rutt sér til rúms á íslenskum markaði með laktósafríum mjólkurafurðum sem hafa gjörbreytt lífi margra. Færri vita söguna á bak við fyrirtækið og hvaðan nafnið er komið.

„Fyrirtækið er sem sagt skírt í höfuðið á mér,“ segir Arna María Hálfdánardóttir, sölu- og markaðsstjóri Örnu, „en það er saga á bak við það,“ bætir hún við. Arna var hugmynd föður hennar, Hálfdáns Óskarssonar mjólkurfræðings, sem fannst vanta ferskar laktósafríar mjólkurvörur á markað hérlendis. „Hugmyndin kviknaði við eldhúsborðið heima á Ísafirði,“ segir Arna, en um sannkallað fjölskyldufyrirtæki er að ræða. „Pabbi er mjólkurfræðingur og þetta var hans hugmynd en markmiðið hjá pabba var að fólk með mjólkuróþol hefði fjölbreyttari kosti. Við höfum öll komið að fyrirtækinu með einum eða öðrum hætti. Fyrsta árið voru þetta pabbi og Óskar bróðir minn sem lögðu allt í þetta. Við hin systkinin vorum yngri en gerðum alltaf eins mikið og við gátum. Í dag er ég svo sölu- og markaðsstjóri, Hildur systir mín og kærastinn hennar, hann Aron Brink, sjá um vörukynningar í verslunum og Haukur Jörundur, bróðir minn, er svo í hinu og þessu hjá okkur meðfram skólanum. Það hafa allir komið að því nema mamma að ég held. Hún hefur verið á fullu í sínu. Sem er kannski eins gott því fyrstu árin var unnið nánast allan sólarhringinn.“

Eyddi hluta jólanna einn vegna ófærðar

„Við búum á Ísafirði en húsnæðið sem við höfðum hug á hér var ekki í boði þannig að við enduðum á að finna hið fullkomna húsnæði í gömlu rækjuvinnslunni í Bolungarvík. Það hentaði okkur vel enda stutt á milli. Pabbi eyddi þó fyrstu jólunum að hluta einn í Bolungarvík þar sem Hnífsdalsvegur var ófær. Það var allt lagt í sölurnar og ekki í boði að missa úr daga vegna ófærðar.“

Nafnið vekur einnig athygli – ekki síst þar sem það er Arna sem stýrir Örnu. „Sko,“ segir Arna hlæjandi, „það er saga á bak við þetta þó að ég grínist alltaf með að vera uppáhaldsbarnið og fólk haldi staðfastlega að ég sé með mjólkuróþol,“ segir hún hlæjandi. „Pabbi var búinn að vera í rekstri áður og gerði meðal annars út bát. Fyrirtækið hét Arna ehf., sem var einmitt í höfuðið á mér en samt meira til gamans gert og kannski aðallega af því að ég var svo ákveðin í að þetta væri besta nafnið. Síðan þegar hönnun vörumerkisins hófst og farið var að skoða hvað fyrirtækið ætti að heita fannst pabba nafnið Arna passa vel inn í merkið sem búið var að hanna og það varð úr að mjólkurvinnslan var nefnd í höfuðið á mér. Ég er samt ekki með mjólkuróþol líkt og allir halda,“ bætir hún við brosandi.

Finna mikla velvild í garð fyrirtækisins

Arna hefur haldið velli í gegnum árin og gott betur. Vöruframboðið er sífellt að aukast og úrval árstíðabundinna vara. Fyrirtækið á sér mjög trausta viðskiptavini og ef fylgst er með því á samfélagsmiðlum má sjá skemmtileg samskipti þar á milli. Spurningum er svarað og allt er þetta á mjög svo mannlegum nótum. „Við reynum að vera eins virk og við getum og ég finn mikla velvild í garð fyrirtækisins. Það skapast oft skemmtilegar umræður eins og um daginn þegar krukkusending til okkar brást þannig að við urðum að taka hlé á framleiðslu haustjógúrtarinnar. Þá bauðst fólk unnvörpum til að lána okkur krukkur! Sem hefði verið frábært ef það hefði verið mögulegt en út af hreinlætiskröfum má það ekki,“ útskýrir Arna.

Arna er jafnframt mikilvægur atvinnuveitandi á Vestfjörðum en Arna segir að það hafi verið föður sínum ákaflega mikilvægt að starfsemin yrði fyrir vestan þótt það sé að mörgu leyti flóknara. „Hjá okkur starfa nú sautján manns fyrir vestan og við munum bæta við á næstunni. Við erum að koma með kryddosta á markað núna, vonandi fyrir jól, en þeir eru framleiddir á Ísafirði.

Þarf minni viðbættan sykur

Það sem einkennir laktósafría mjólk er að hún er sætari á bragðið en það gerist þegar mjólkursykurinn er brotinn niður. Fyrir vikið þurfum við minna af viðbættum sykri í vörurnar okkar, sem er mikill kostur. Einnig eru væntanlegir eftirréttir frá okkur í krukkum. Við ætlum ekki að setja límmiða á krukkurnar en hugsunin er að fólk geti nýtt þær áfram. Við erum mjög meðvituð um þetta límmiðamál allt saman og hvað það fer oft fyrir brjóstið á fólki að þurfa að ná þeim af. Því tókum við meðvitaða ákvörðun um að merkja krukkurnar ekki á þann hátt. Hugsunin er jafnframt að þú getir borið eftirréttinn fram í krukkunni þannig að fyrirhöfnin sé engin.

Ísinn væntanlegur í verslanir

Ís frá Örnu er einnig fáanlegur á Ís- og kaffibar Örnu á Eiðistorgi. Þar er seldur ís frá fyrirtækinu en upphaflega hafði planið verið að selja ís í ísbúðir. Svo komumst við að því að flestar ísbúðir eru með ísvélar sem ísframleiðendur láta þeim í té og mega því ekki bjóða upp á ís frá öðrum úr þeim vélum. Þetta setti óneitanlega strik í reikninginn en það varð úr að Jón Tetzchner, sem er einn af fjárfestunum á bak við Örnu, ákvað að opna ís- og kaffibar á Eiðistorgi þar sem hann rekur meðal annars öflugt frumkvöðlasetur,“ segir hún og bætir við að von sé á ísnum í almennar matvöruverslanir fyrir jólin. Það verður sérstakur jólaís í boði sem verður í fallegum glerkrukkum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert